154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[13:27]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ekki áhyggjur af því að stjórnvöld halli sér aftur í stólnum og sjái bara til hvað gerist. Ég held að við séum öll, hvort sem við erum þingmenn eða ráðherrar í ríkisstjórn, að skoða hvað er nauðsynlegt að gera og hvernig. Það kann að vera, ég veit það ekki, að áður en þessu þingi lýkur fyrir vorið sé nauðsynlegt að gera einhverjar breytingar. Ég tel ekki hægt að segja fyrir um það núna en vil bara ítreka það að þegar svona óvenjulegar aðstæður koma upp þá eigum við öll að vinna að því og greiða fyrir því að það sé bæði hugsað fram í tímann en jafnframt brugðist við því sem jafnvel engum datt í hug að gæti mögulega gerst.