154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[13:48]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Jú, þessi tvö atriði voru heilmikið rædd ásamt fleirum. Varðandi tengsl heimila og atvinnustarfsemi þá eru það náttúrlega fjölskyldufyrirtækin, sem eru mörg í Grindavík, þar sem tengslin eru bara sýnileg og við vitum af þeim. Síðan er það líka að ef enginn býr í bænum þá er erfitt að halda uppi atvinnustarfsemi. Það tengist hinni spurningunni vegna þess að fólk má búa í bænum núna en hann er hættulegur, þannig að það er aðeins brot af þeim starfsmönnum sem eru að vinna hjá fyrirtækjum sem býr í bænum og það er kostnaður við að keyra fólk fram og til baka. Við höfum fengið upplýsingar um að fyrirtækin séu að borga bensínstyrki, þau séu að skaffa bíla fyrir starfsfólk og greiða því laun á ferðatímanum. Þetta er auðvitað umframkostnaður sem fyrirtækin bera til að halda uppi starfseminni. Síðast en ekki síst verður skrýtið samfélag í Grindavík ef þar verða engin fyrirtæki og fyrirtækin þurfa á íbúum að halda. Þetta hangir því allt saman og þarf að skoða í samhengi þegar við erum að velta fyrir okkur hvernig eigi að bregðast við.

Þó að við getum lært mjög margt af því sem við gerðum í Covid þá er ekki hægt að spegla allar aðgerðir beint yfir á það. Þetta eru aðrar aðstæður. Við vissum að heimsfaraldur myndi einhvern tímann ganga yfir, vorum nokkuð viss um það, en við vitum ekki hvað verður um Grindavík. (Forseti hringir.) Og við erum að bíða bara eftir gosi. (Forseti hringir.) Kannski kemur það á morgun, kannski hinn, kannski í þarnæstu viku.