154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[14:05]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er þá jafn gleyminn og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, ég man ekki eftir fleiri úrræðum en hv. þingmaður nefndi hér til stuðnings fyrirtækjum í Grindavík. En jú, ég var í þessum undirhópi sem var aðallega að velta fyrir sér og kannski eingöngu því úrræði sem verður rætt hér á eftir, um uppkaupin á húsnæði í Grindavík. Mestur tíminn fór í það. Ég styð það svo sannarlega að við fáum til fundar við nefndina hæstv. fjármálaráðherra til að velta vöngum yfir framhaldinu. Eins og hún nefndi hér eru í Grindavík fjölskyldur sem eiga allt sitt undir því að fjölskyldufyrirtæki þeirra haldi áfram. Þær eiga kannski húsnæði og við fengum til fundar við nefndina einstaklinga sem tilheyrðu fjölskyldu sem átti atvinnuhúsnæði fyrir þrjú fyrirtæki, þrjú atvinnuhúsnæði og lífeyrir sem einn einstaklingur horfði til, væntanlega til þess að geta selt þetta í framhaldinu, var bundinn í þessu atvinnuhúsnæði, þ.e. ellilífeyrir viðkomandi einstaklings var bundinn í þessu húsnæði í Grindavík sem verður ekki selt væntanlega í marga áratugi. Hver ætlar að fara að kaupa fyrirtæki upp í Grindavík? Það dettur engum í hug þannig að viðkomandi einstaklingur er búinn að tapa ævistarfi sínu ef ekkert verður að gert og hann mun ekki eiga annað en þá berstrípaðan ellilífeyri í framhaldinu af því að allt hans var undir, hann veðjaði á Grindavík.