154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[14:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Teitur Björn Einarsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara svar. Aftur komum við að þessu sem er lykilatriði í þessu máli, sem er grundvallaratriði, afmörkun á efni þessa frumvarps. Hver er tilgangur þess og markmið? Ef tilgangur og markmið frumvarpsins væri að bæta allt það tjón sem hefði átt sér stað í bænum þá er alls ekkert útilokað að nálgunin hefði verið önnur en hér er fram sett. Við vitum það að í náttúruhamfaratryggingum er brunabótamat lagt til grundvallar með eigin áhættu og svo koma önnur atriði sem verður að hafa til hliðsjónar. Í ofanflóðasjóði er ekki lagt upp með brunabótamat heldur markaðsvirði. Í sögunni hefur þetta nefnilega, í þeim hörmungum sem áður hafa dunið yfir annars staðar á landinu, ekki alltaf farið saman. En þetta er uppleggið í þessu frumvarpi með þessum hætti og ég tel að það sé skiljanlega vel sett fram (Forseti hringir.) og að 95% af brunabótamati nái þeim markmiðum sem stefnt er að.