154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[14:59]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar fyrir framsöguna á nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar í þessu mikilvæga máli. Ég vil róa á sömu miðum og hv. þm. Oddný Harðardóttir hér á undan mér varðandi fjármögnun á þessu úrræði og byrja á því að ræða um það að nota fjármuni náttúruhamfaratryggingarsjóðs í þetta. Við ræddum þetta töluvert innan nefndarinnar og töluðum um mikilvægi þess að tryggja það að burðarþol sjóðsins væri eftir sem áður sterkt til að takast á við framtíðaráföll, kunni þau að verða. Mér fannst aðeins einn af þeim valkostum sem Náttúruhamfaratrygging Íslands tekur til sem leið til að styrkja framtíðarburðarþol hafa ratað inn í nefndarálitið sem tillaga og hitt kannski meira sem ábending til ráðherra. Annars vegar er rætt um það í nefndarálitinu að það ætti að líta til þess að náttúruhamfaratryggingarsjóður ætti að vera undanþeginn því að þurfa að greiða fjármagnstekjuskatt eins og aðrar sambærilegar stofnanir en þar er ekki minnst á hækkun iðgjaldsins. Ég velti bara fyrir mér hvort formaður sé þar með í raun að vísa ábyrgð á því að taka það til skoðunar yfir á ráðherra eða hvernig það er og hvort honum finnist ekki tilefni til þess að nefndin hafi frumkvæði að því að skoða hækkun iðgjaldsins heilt yfir.

Ég veit ekki hvað ég kemst langt með hinn þáttinn sem snýr að fjárveitingunni, en mér finnst einhvern veginn skína í gegn af greinargerð með frumvarpinu, og ég veit ekki hvort hv. þingmaður hefur einhvern ávæning af því hvort það sé yfir höfuð — (Forseti hringir.) nú vantar mig bara að finna setninguna — ástæða til að vera að byggja upp sjóði NTÍ að nýju. (Forseti hringir.) Ég sá setningu þar og skal finna hana fyrir seinna andsvar. (Forseti hringir.) Veit hv. þingmaður til þess að það standi ekki til að byggja sjóði upp að nýju hjá NTÍ?

(Forseti (ÁsF): Ég minni ræðumenn á ræðutímann, hann er takmarkaður.)