154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[15:26]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna og fyrir sitt álit hér. Þar eru bara margir góðir punktar sem ég get tekið heils hugar undir. Ég hef mikið verið að velta fyrir mér öðrum húseignum í Grindavík, þ.e. húseignum í eigu einstaklinga sem þeir hafa kannski verið að leigja út eða hafa ekki átt lögheimili í og sem falla ekki undir þetta frumvarp. Mér finnst allsendis óljóst hvort ríkisstjórnin ætli sér að taka á því í einhverjum komandi frumvörpum. Við vorum að ræða áðan þegar við ræddum fyrra frumvarpið að mér þætti óljóst hvort það yrði yfir höfuð komið til móts við eigendur íbúðarhúsnæðis í Grindavík og þá finnst mér enn þá óljósara hvort það eigi að gera eitthvað gagnvart fólki sem á fasteign tvö eða þrjú. Mér finnst því gott að sjá þessar breytingar sem hv. þingmaður leggur til til taka utan um þennan hóp líka. Í ljósi þess hvað mér hefur fundist fátt um svör þegar ég er að reyna að fá fram hvað standi til næst varðandi alla hina sem eru skildir eftir í þessum úrræðum sem við erum að ræða hérna í dag þá hallast ég meira og meira að því að vilja ganga lengra heldur en gert er. Mér finnst eins og það standi mögulega bara jafnvel ekki til, af því að það fást engin svör um það. Ég átta mig á því að stundum vill fólk bara fara varlega og ekki lofa upp í ermina á sér en það finnst mér þá gefa til kynna að það sé einhver efi um að það eigi yfir höfuð að gera eitthvað í þessu, sem veldur mér auðvitað áhyggjum. Mér finnst einmitt mjög mikilvæg þessi réttlætistaug sem gengur í gegnum þetta nefndarálit hjá hv. þingmanni þegar kemur að yngri kaupendum og því hvernig þau eru verst sett með brunabótamatinu. Ég vildi bara þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á því vegna þess að ég held að þetta sé mikið réttlætismál á milli kynslóða.