154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[15:30]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek bara heils hugar undir með hv. þingmanni, það er á okkar ábyrgð. Mig langar samt að venda aðeins kvæði mínu í kross og spyrja út í frumvarpið sjálft og þá fjármögnunarleið sem er valin á því. Það er eitthvað sem hefur vafist fyrir mér. Aðalástæðan, ein af þeim, fyrir því að ég er ekki með á nefndaráliti meiri hlutans er að mér finnst fjármögnunarleiðin sem er valin vafasöm. Ég veit að við hv. þingmaður eigum það sameiginlegt að hafa áhyggjur af verðbólgunni og því hvað ríkisstjórnin skilar mikið auðu í baráttunni við verðbólguna. Nú er það svo að fjármögnunin á þessum aðgerðum felst annars vegar í náttúruhamfaratryggingarsjóði, og þó að ég eigi í erfiðleikum með það skulum við bara láta það liggja milli hluta núna, og hins vegar í 30 milljarða lántöku ríkissjóðs. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður deili þeim áhyggjum, þótt við séum kannski ekki sammála um hvaðan peningarnir ættu annars að koma, að það að taka lán fyrir þessari aðgerð akkúrat á þessum tímapunkti sé ekkert sérlega skynsamlegt með tilliti til verðbólgunnar. Erum við ekki þá að auka peningamagn í umferð og er þetta ekki þensluhvetjandi frekar en letjandi? Það kemur meira að segja fram í greinargerð með frumvarpinu að þetta þýði að ríkisfjármálin verði hlutlaus gagnvart verðbólgunni, eins og þau eru búin að vera bara meira og minna frá því að þessi ríkisstjórn tók til starfa samkvæmt seðlabankastjóra. Það er eins og það sé ekki hægt að sjá að hér væri leið til að slá á þensluna eða draga saman seglin, ef það er frekar hugmyndin, þótt ég aðhyllist það síður, í staðinn fyrir að fara í lántöku og meiri útgjöld á þann hátt ásamt því svo að ætla að fara að veikja burðarþol Náttúruhamfaratryggingar Íslands, algerlega burt séð frá því að ég styð auðvitað heils hugar að þessum peningum sé eytt. Það er bara spurning um hvaðan þeir koma, úr hvaða vasa.