154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[15:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ástæðan fyrir því að ég vildi miða við 98%, og við í Samfylkingunni, er að það er viðmið sem notað er í lögum um náttúruhamfaratryggingar og útgangspunkturinn, bæði það að nota brunabótamatið og svo ákveðna prósentu af því, er viðmið í lögum um náttúruhamfaratryggingar. Hugmyndin er sú að það sé ekki mikill munur á því hvort þú ferð þessa leið, að þú ákveðir að selja húsið þitt eða íbúðina inn í þetta eignarhaldsfélag, eða þá að húsið þitt verður fyrir tjóni, hvort sem það er altjón eða ekki, að það sé ekki eitthvert happdrætti heldur sé það svipuð staða. Það eru rökin fyrir 95% en 95% eru samt aðeins betri, þau eru hagstæðari fyrir fólk sem verður ekki fyrir altjóni af því að það þarf að farga og það er kostnaður við það en kannski verri fyrir fólkið sem lendir í því að húsið þeirra fer undir hraun, þannig að 95% er þarna mitt á milli. Nú finnst mér eins og ég sé að færa rök fyrir 95% en það er ekki það sem ég ætlaði að gera. En mér hefði fundist, af því að við vitum ekkert hvað verður um húsin eða hvort þau verða yfir höfuð fyrir tjóni, að við hefðum átt að segja: Við skulum miða við það að öll húsin í Grindavík fari undir hraun, miðum bara við þá tölu. Mér hefði fundist það réttlátara. En ég ætla ekki að leggjast gegn frumvarpinu fyrir vikið.