154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[15:55]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég bara trúi því að stjórnvöld, eins og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir sagði í dag, að hún byggist ekki við því að stjórnvöld hölluðu sér aftur í stólnum og biðu bara eftir næsta gosi heldur væru að bretta upp ermar, teikna upp sviðsmyndir og ákveða hvað ætti að gera; hvað er það sem við getum gert núna strax og hvað er það sem við vitum ekki? Óvissan er mikil en við getum teiknað upp sviðsmyndir og gengið síðan öruggt og fumlaust til verka ef sviðsmyndir rætast. Við þurfum, og ég sagði það líka fyrr í þessari umræðu, að læra það, Íslendingar, að plana aðeins fram í tímann, eiga uppi í hillu áætlanir til að bregðast við óvæntum atburðum sem við getum verið viss um að við lendum í í þessu landi og ekki bara í Grindavík. Það sem við eigum að gera er að læra af því sem við höfum gert í fortíðinni. Við eigum að skoða hvað það er sem við höfum gert rétt og vel og halda því áfram en við eigum líka að viðurkenna að við höfum gert mistök. Það hafa t.d. ekki allir farið eftir byggingarreglugerðum um að það megi ekki byggja yfir sprungur. Þar stendur að það megi ekki gera en það er samt gert og það var gert í Grindavík og það hefur verið gert víðar. Við þurfum að læra af því. Síðan þurfum við að skoða hvað við getum gert núna á milli gosa og það er það sem við erum að gera nú með því að afgreiða þessi frumvörp sem eru hér í dag. Svo þurfum við að halda áfram því starfi og að lokum þurfum við að horfa til framtíðar. Sagan segir okkur að gosstöðvarnar muni færast til austurs og við þurfum að vera tilbúin undir það ef það gerist.