154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[16:38]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Frú forseti. Við ræðum hér við 2. umræðu lög um uppkaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík. Eins og framsögumaður fór vandlega yfir í upphafi umræðunnar er um að ræða veigamesta skref stjórnvalda hingað til til að mæta ómældri óvissu og röskun á lífi og búsetu íbúa í Grindavík vegna viðvarandi náttúruhamfara. Gríðarleg vinna hefur verið lögð í þetta frumvarp af hálfu stjórnvalda og Alþingis með aðkomu allra flokka á þingi. Ég efast ekkert um að sá mikli samhljómur sem við heyrum hér í umræðunni muni berast til Grindvíkinga. Ég hef heyrt í þeim hópi og það hefur verið fagnaðarefni hversu mikil samstaða hefur verið um málið.

Á seinni stigum kemur í ljós að sú nálgun sem undirbúningsnefndin setti og hefur náð fram — ég tel það vera vel og þó að vissulega séu mér ákveðin vonbrigði að hér komi fram minnihlutaálit þá held ég að við getum klárað málið hratt og vel og ég held að það skipti mjög miklu máli fyrir Grindvíkinga að það sé gert.

Meðal þeirra sjónarmiða og breytinga sem gerðar voru í samráðshópnum áður en málið fór til efnahags- og viðskiptanefndar, eins og hefur verið nefnt í umræðunni, var að hækka hlutfall brunabótamats úr 90% í 95%. Ákveðið var að kaupverð skyldi miða við brunabótamat út frá þeirri forsendu að brunabótamat væri að jafnaði hærra í Grindavík en fasteignamatið. Einnig liggur fyrir að íbúar eiga þess kost að fá brunabótamat sitt endurmetið og hafa fjölmargir ákveðið að fara þá leið.

Eftir að frumvarpið var sett í samráðsgátt komu fram fjölmargar athugasemdir en það er einmitt tilgangurinn. Það er alveg morgunljóst að ekki er hægt að koma til móts við allar þeirra en efnahags- og viðskiptanefnd hefur unnið nótt og dag við að gera sitt ýtrasta til að bæta frumvarpið. Það er ástæða til að nefna veigamestu þættina í þeim breytingum. Það skal tekið fram að frumvarp sem þetta á sér engin bein fordæmi í sögunni. Við vinnslu nefndarinnar voru lagðar til enn frekari breytingar í nefndaráliti sem framsögumaður hefur farið yfir. Mér er efst í huga sú samvinna sem var innan nefndarinnar, sem var gríðarlega góð.

Nefndin áréttar mikilvægi þess að skoðað verði hvort hægt sé að koma til móts við lögaðila í Grindavík á einhvern á svipaðan hátt. Ég er að vonast til þess að sú vinna sé hafin í ráðuneytinu.

Það voru ánægjulegar fréttir í morgun að ákveðið hafi verið að veita undanþágur frá greiðslubyrðarhlutfalli sem gerir það að verkum að enn auðveldara verður fyrir fólk í Grindavík að komast inn á fasteignamarkað að nýju. Þetta var einn af þeim þáttum sem nefndin fjallaði um í nefndaráliti sínu. Ákvörðun um að veita slíka undanþágu er í höndum Seðlabanka Íslands, að undangenginni samþykkt fjármálastöðugleika nefndar, og gerðist það í morgun.

Töluverðar athugasemdir bárust vegna umgengnisréttar við eignir í kjölfar þess að þær voru keyptar af eignaumsýslufélagi. Fjallar nefndin um vilja sinn í þeim efnum og telur mikilvægt að við setningu reglugerða verði tekið mið af þeim sjónarmiðum íbúa sem komu fram í samráðsgátt.

Veigamesta breyting málsins í meðförum þingsins snýr þó að framlengingu á fresti til að óska eftir sölu eigna en hann hefur verið framlengdur út árið 2024. Það er mín skoðun að þessi breyting gefi íbúum frekara svigrúm til að taka ákvarðanir en þær eru vitaskuld bæði afdrifaríkar og verulega veigamiklar.

Einnig leggur nefndin til að forgangsréttur verði framlengdur og falli ekki niður fyrr en eftir þrjú ár. Það er einnig alveg skýrt af hálfu nefndarinnar að umrætt félag geti ekki ráðstafað íbúðarhúsnæði sem háð er forkaupsrétti til annars en forkaupsréttarhafa áður en mat á stöðunni hefur farið fram, eins og nefnt var í fyrri ræðu. Það skiptir máli fyrir Grindvíkinga að skyldur þessa félags séu eins skýrar og mögulegt er. Því var ákveðið að leggja til breytingar þess efnis að við einkaréttarlegar ákvarðanir skuli félagið hafa til grundvallar gegnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Einnig er áréttað að Ríkisendurskoðun hafi eftirlit með starfsemi félagsins.

Virðulegi forseti. Grundvöllur og markmið frumvarpsins er að tryggja eftir fremsta megni búsetuöryggi fyrir þá sem búa í Grindavík. Því ákvað nefndin að fella búseturéttarhafa undir frumvarpið sem ég tel mikilvægt skref. Frumvarpið tekur ekki til lögaðila, eins og ég nefndi hér áðan, en það er svo sannarlega von mín og vert að árétta það að ég vænti þess að í þessari vegferð okkar verði sérstaklega tekið tillit til fyrirtækja í Grindavík.

Við lagasetningu sem þessa er alveg ljóst að ekki verður hægt að koma til móts við öll sjónarmið. Ég hef í starfi mínu lagt áherslu á það að við gerum þó okkar allra besta til að koma til móts við sem flesta. Staða Grindvíkinga er gríðarlega erfið og ekki á nokkurn hátt hægt að setja sig í þeirra spor. Við verðum að halda áfram þessari vinnu. Ég nefndi það, er við ræddum mál um stuðning við atvinnurekstur fyrr í dag, að vissulega sé verið að setja hér ákveðin fordæmi og ég held að mikilvægt sé að læra af þeirri vinnu sem hér hefur farið fram. Við þurfum líka að vera tilbúin til þess að endurskoða hlutina ef þörf er á. Við þurfum að byggja upp heildstætt kerfi til að taka á náttúruhamförum og hvernig við getum bætt þann skaða sem af þeim kann að hljótast.

Óvissan sem blasir við á Reykjanesi er vissulega yfirþyrmandi. Það er ekki ólíklegt að eldgos endurtaki sig á næstu vikum og ófyrirséð hversu lengi við þurfum að glíma við náttúruvá. Reyndar kom fram í frétt í dag að Veðurstofa Íslands gerir ráð fyrir því að kvikusöfnun í Svartsengi nái ákveðnu hámarki í næstu viku. Við aðstæður sem þessar, sem við glímum við, er mikilvægt að við höldum samheldni, samkennd og höfum kjark til að taka ákvarðanir. Ég er mjög ánægður með útkomu þessa frumvarps. Ég er sannfærður um að þingheimur muni á endanum sameinast um að samþykkja það, Grindvíkingum til heilla.

Ég vil að lokum þakka aftur undirbúningsnefndinni, ráðherra og starfsmönnum fjármálaráðuneytis, nefndarmönnum í efnahags- og viðskiptanefnd en síðast en ekki síst íbúum Grindavíkur og þeim fjölmörgu sem bæði sendu inn athugasemdir í samráðsgátt og þeim sem við höfðum tækifæri til þess að hitta við vinnslu málsins. Við stöndum með Grindvíkingum í þeirra erfiðleikum og höldum áfram þessari vegferð þeim til heilla.