154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[16:48]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka þingmanninum fyrir spurninguna. Ég get heils hugar tekið undir það og ég hef auðvitað áhyggjur af því að einhverjir falli milli skips og bryggju. Það er verið að reyna að leita leiða til að tryggja að úrræðið nái utan um sem flesta. Það er það sem er unnið með. Hvað varðar brunabótamatið er auðvitað ákveðinn kostur að íbúar í Grindavík geti fengið það leiðrétt. Ég held að 600 íbúar hafi óskað eftir því og þar af leiðandi endurspeglar það betur þann raunveruleika sem blasir við.

Ég held að það hafi verið mjög mikilvægt að veita þetta svigrúm sem nú hefur raungerst varðandi fyrstu kaupendur en við þurfum líka að sjá hvernig þessu frumvarpi fram vindur. Ég spyr mig alltaf að því hvort það sé raunverulega hægt að setja einhvern raunhæfan mælikvarða á aðgerð sem þessa. Ég held að það sé mikilvægt að við samþykkjum á þessum forsendum frumvarpið og ég vænti þess að það nái utan um a.m.k. þá aðila sem falla undir þær greiningar sem ráðuneytið hefur gert og lagði til grundvallar. Það náttúrlega gefur augaleið að þetta er gríðarlega fjölbreyttur hópur. Ekki bara hef ég áhyggjur af þeim sem hafa nýlega keypt sér eign í Grindavík heldur einnig kannski þeim sem eru í þeirri stöðu að falla mögulega ekki beint undir þetta úrræði sem snýr að lögheimili. Ég held að það væri mikilvægt að veita þá undanþágu. En í praxís verðum við auðvitað að skoða hvernig þetta gagnast og vera opin fyrir því í framhaldinu.