154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[17:14]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér nefndarálit frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík og ég er ein þeirra sem standa að og skrifa undir þetta nefndarálit. Framsögumaður málsins hefur hér fyrr í dag farið í gegnum nefndarálitið svo og aðrir þingmenn og ég hef ekki hugsað mér að endurtaka það allt í þessari ræðu nú en það eru þó nokkur atriði sem ég vildi koma hér upp og ræða aðeins eða hnykkja á. Fyrst vil ég segja það almennt um þetta frumvarp og til upprifjunar að með því er lagt til að fjármála- og efnahagsráðherra verði skylt að stofna félag sem fái það hlutverk að ganga til samninga um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík í eigu einstaklinga sem falla undir gildissvið frumvarpsins og óska þess. Það er því hér um gríðarlega stórt, óvenjulegt og mikilvægt frumvarp að ræða og er í mínum huga mjög stórt púsluspil inn í þær aðgerðir og þann stuðning sem ríkið er eðlilega og réttilega að koma með til Grindvíkinga.

Við höfum rætt það hér fyrr í dag að það eru ýmis önnur frumvörp sem taka til annarra atriða og alls ekki hægt að útiloka það og má jafnvel telja líklegt að fleiri frumvörp muni koma í kjölfarið á þessu, m.a. hvað varðar húsnæði lögaðila sem ekki er fjallað um í þessu frumvarpi hér. Við höldum auðvitað bara áfram að fylgjast með málum og vinna hratt og örugglega að þeim og vonandi í jafn ríku samtali og þéttu og við höfum gert við þessi mál fram til þessa.

Mig langar aðeins að koma inn á það vegna þess að það hefur svolítið í umræðunni hér, kannski eðlilega, verið rætt um það að miðað er við brunabótamat í þessu frumvarpi. Ég vil bara árétta að það er til samræmis við það að ef altjón verður á húsi vegna náttúruhamfara, til að mynda ef hús fer undir hraun eins og því miður hefur gerst, þá kemur náttúruhamfaratryggingarsjóður til og fær fólk þá 98% af brunabótamatinu til sín.

Svo hefur talsvert verið rætt um það að í því frumvarpi sem við erum hér að ræða, og verður vonandi samþykkt á eftir, sé miðað við 95% af brunabótamati og hefðu sumir viljað hafa það hærra. Það er bara sjónarmið. En þá langar mig að árétta að hér er um að ræða hús sem standa enn en með frumvarpinu geta þau sem það nær til, þ.e. þetta gildir um íbúðarhúsnæði í eigu einstaklinga sem höfðu þar skráð lögheimili sitt, selt umsýslufélaginu eignina með forkaupsrétti í þrjú ár. Þetta skiptir máli, finnst mér, inn í þetta samhengi.

Í breytingartillögum meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar er verið að leggja það til að tíminn sem einstaklingar hafa til að taka ákvörðun um hvort þau vilji fara þessa leið sé lengdur frá því sem lagt er til í frumvarpinu, sem er 1. júlí, og út þetta ár eða til 31. desember. Það skiptir máli í þessu. Þá er einnig lagt til í breytingartillögu meiri hluta að forkaupsréttur eigenda verði lengdur úr tveimur árum í þrjú ár.

Að auki hefur hér verið bent á og ég ætla bara að nota tækifærið og fagna því að fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands hefur gefið út yfirlýsingu um að í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem eru í Grindavík hafi fjármálastöðugleikanefnd ákveðið að rýmka tímabundið langtímaskilyrði þeirra sem eiga og þeirra einstaklinga sem áttu íbúðarhúsnæði í Grindavík 10. nóvember 2023, og hægt er að kynna sér nánar á heimasíðu Seðlabankans.

Til viðbótar þessu öllu langar mig einnig að benda á og grípa niður í nefndarálit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar þar sem fjallað er um umgengnisrétt en fyrir nefndinni komu fram ábendingar um umgengnisrétt seljanda um eignir. Í greinargerð með frumvarpinu segir að ákvörðun þar að lútandi verði verkefni félagsins. Meiri hlutinn bendir á að reglugerðarheimild í 2. tölul. 1. mgr. 7. gr. frumvarpsins feli í sér heimild ráðherra til að kveða á um umgengnisrétt seljanda. Meiri hlutinn telur heppilegast að það verði gert í góðri samvinnu við seljendur og að tekið verði tillit til sjónarmiða þeirra. Þetta finnst mér allt mikilvægt að hafa í huga þegar við fjöllum um þetta frumvarp og það eru rök fyrir því af hverju sú leið er farin sem hér er lögð til.

Mig langar að einnig að benda á tvær breytingartillögur sem eru í nefndaráliti meiri hlutans — og vil taka það fram að ég er bara að taka dæmi um breytingartillögur en er ekki að fara yfir þær allar, þær eru á sérstöku þingskjali og er hægt að kynna sér og framsögumaður hefur rakið þær hér fyrr í dag í stórum dráttum — en þetta er atriði sem snýr að ráðstöfun eigna sem háðar eru forgangsrétti. Fyrir nefndinni kom fram það sjónarmið að það kynni að ganga gegn markmiðum frumvarpsins að eignaumsýslufélagið hugaði að ráðstöfun eigna sem háðar eru forgangsrétti á meðan óvissa varir um framvindu jarðhræringa í Grindavík og að áður en til sölu eigna af hálfu félagsins komi þurfi að hafa farið fram mat á því hvort lengja beri forgangsréttinn. Meiri hlutinn telur einnig að til þess að standa vörð um markmiðið með frumvarpinu þá sé bætt við málslið sem kveður á um að félaginu sé óheimilt að ráðstafa íbúðarhúsnæði sem háð er forgangsrétti skv. 5. gr. til annarra en forgangsréttarhafa áður en slíkt mat hefur farið fram. Þetta tel ég vera til bóta og vil bara fagna því hvernig nefndin tók utan um þetta mál í sínum störfum.

Að lokum er breytingartillaga sem ég tel algerlega sjálfsagða en líka bara gott að taka fram og hún lýtur að því að meiri hlutinn telur að það eigi að taka skýrlega fram að Ríkisendurskoðun hafi eftirlit með starfsemi félagsins sem hér er lagt til að stofna.

Ég held að með þessu öllu þá séum við að ná býsna vel utan um þennan þátt Grindavíkurmála, þ.e. húsnæði í eigu einstaklinga sem með einhverjum undanteknum en almennt séð höfðu þar búsetu. Ég vona það að að lokinni þessari umræðu og bara núna fljótlega þá klárum við málið og gerum þetta mikilvæga mál að lögum.