154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

717. mál
[17:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa fyrirspurn sem snýr að efnahagsstefnunni og hvernig þessar aðgerðir og þessir atburðir sem við erum að horfa á núna endurspeglast þar. Ég er sammála hv. þingmanni eins og oft áður, ég held að það sé rétt að þetta hafi kannski ekki átt heima — þessi viðauki, þessi fjárauki sem við erum að samþykkja núna, lánsheimild upp á 30 milljarða, það hefur komið fram að það ríki óvissa um hvort hún verði nýtt eða ekki. Að vissu leyti er gert ráð fyrir því. Við erum að setja hana inn vegna þess að það er metin þörf á henni. En ég er algerlega sammála því að við þolum ekkert mikið fleiri fjárauka og ef þessir atburðir halda áfram sem við höfum enga vissu fyrir hvernig enda og hvaða tjóni þeir muni á endanum valda okkur, bara á þessu ári, hvað þá lengra fram í tímann, þá er bara mjög mikilvægt að við förum að skoða þetta í stóru samhengi og í samhengi við efnahagsstjórn landsins. Þannig að ég er bara sammála hv. þingmanni. Að sjálfsögðu er eðlilegt að fjárlaganefnd sé með augun á boltanum hvað þetta verkefni varðar, þetta er náttúrlega bara hlutverk nefndarinnar.