154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

717. mál
[17:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir síðara andsvar og ég bara endurtek það sem ég sagði áðan, ég er alveg sammála hv. þingmanni um það að við þurfum að sjálfsögðu að skoða hvað þessar aðgerðir og þessi auknu útgjöld munu þýða í stóra samhengi ríkisfjármálanna. Það er mjög mikill lykilþáttur og er lykilþáttur upp á það hvernig við ætlum að bregðast við næst. Við þurfum að vita hvað þetta þýðir, hvert þetta leiðir okkur, hvað þetta gerir fyrir stóru myndina þannig að við höfum betri yfirsýn og tæki í höndunum þegar við förum að taka ákvarðanirnar varðandi næstu skref og framtíðina og það sem vofir yfir okkur að muni gerast, í hve miklum mæli eða á hve stórum skala vitum við ekki. En þetta eru greiningar sem við þurfum að hafa, það er alveg rétt. Og þótt ég hafi sagt hér áðan að það hafi komið fram í þessu minnisblaði sem fjárlaganefnd fékk að mögulega yrðu þessir 30 milljarðar ekki nýttir þá breytir það því ekki að þessir 30 milljarðar eru að fara út í þessu frumvarpi. Það er verið að taka ákvörðun um að setja 30 milljarða út sem hefði ekki þurft ef þessi atburður hefði ekki gerst þannig að klárlega, hvort sem við verðum að nýta þessa aukaheimild eða hvort þetta rúmist innan þessara 200 milljarða, erum við samt sem áður að setja peninga út sem við þurfum að hafa alveg skýra mynd af hvað þýðir í samhengi hlutanna.

Ég vil nota síðustu fimm sekúndur ræðu minnar í að gera það sem ég gleymdi að gera í ræðu minni og þakka fjárlaganefnd kærlega fyrir gott samstarf í nefndinni nú sem áður fyrr og ég vona að við eigum góðar umræður um þetta frumvarp.