154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

717. mál
[17:45]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka flutningsmanni, hv. þm. Stefáni Vagni Stefánssyni, fyrir sína greinargóðu framsögu. Hér er mikilvægt mál á ferð og ánægjulegt að þingið hefur borið gæfu til að afgreiða þau mál sem snerta samstöðu þjóðarinnar með Grindvíkingum hratt og vel og þetta er liður í því. Hér í dag hefur farið fram góð umræða sem snertir með misjöfnum hætti þau mál og er það vel. Að sama skapi er auðvitað mikilvægt að skynja og skilja að þær aðgerðir sem gripið er til geta orðið eldsmatur á verðbólgubálinu og því skiptir máli hvernig samstaðan með Grindvíkingum er fjármögnuð og til hvaða aðgerða er gripið til að vinna gegn því að áhrifin á verðlag, sérstaklega auðvitað húsnæðisverð, sem hefur drifið áfram verðbólguþróunina hér á landi undanfarin ár, verði ekki þau að viðhalda hárri verðbólgu og hæstu stýrivöxtum í Evrópu.

Hæstv. fjármálaráðherra var með ádrátt um það hér fyrr í dag að endurskoða þyrfti fjármálaáætlun til að ríkisfjármálin styðji við verðbólgumarkmið Seðlabankans og er það vel. Að sama skapi kom fram í máli hv. formanns fjárlaganefndar hér í andsvörum að hann teldi að huga þyrfti að efnahagsstjórninni í þessu samhengi.

Við í Samfylkingunni höfum um nokkra hríð talað fyrir því að það þurfi að ná betri stjórn á skammtímaleigu, þ.e. að það sé hægt að koma í veg fyrir að heilu blokkirnar séu byggðar eða keyptar og síðan nýttar eingöngu sem gisting fyrir erlenda ferðamenn í stað þess að koma inn á leigumarkaðinn eða húsnæðismarkaðinn fyrir almenning í þessu landi. Einnig höfum við talað fyrir aukinni aðkomu lífeyrissjóðanna að uppbyggingu á húsnæði en þetta eru hvort tveggja atriði sem fyrir löngu hefði átt að vera búið að ráðast í.

Þetta frumvarp, virðulegur forseti, snýst auðvitað fyrst og fremst um auknar lántökuheimildir ríkissjóðs fyrir utan stofnun eignaumsýslufélags með þeim eignum sem keyptar eru af Grindvíkingum. En á þessum tímapunkti þarf að halda til haga og ítreka mikilvægi þess að ráðast í mótvægisaðgerðir til að koma í veg fyrir að þeir peningar sem koma þarna inn á markaðinn virki sem bensín á verðbólgubálið. Í þeim efnum er ekki aðalatriðið hvar peningarnir eru fundnir til að standa undir þessu verkefni, það er fyrst og fremst bókhaldslegt atriði, en hitt er að huga að þenslunni og vinna gegn henni með markvissum hætti. Það eru sem sagt áhrifin af notkun peninganna sem skipta máli.

Ég nefndi áðan framboðshliðina, virðulegur forseti, að það þurfi að finna leiðir til að losa um húsnæði, annars vegar t.d. með hömlum á skammtímaleigu, og þar kemur að því að það voru nokkur vonbrigði að sjá frumvarp frá hæstv. viðskiptaráðherra um daginn þar sem ekki var gert ráð fyrir að það yrði tekið á því vandamáli afturvirkt sem ég hef nefnt hér fyrr í þessari ræðu, að deilihagkerfið, sem hugsað var sem leið fyrir almenning til að skapa sér aukatekjur með því að leigja húsnæði sitt tímabundið til ferðamanna, er orðið að atvinnugrein þar sem spekúlantar kaupa upp íbúðarhúsnæði eingöngu til að leigja það út í skammtímaleigu til ferðamanna. En það þarf líka að huga að áhrifum þeirra peninga sem koma inn á markaðinn með þessum aðgerðum. Það eru yfir 1.100 heimili sem þarf að finna fyrir íbúa Grindavíkur á allra næstu mánuðum.

Þegar eldgosið varð í Heimaey var ráðist í hækkun á söluskatti til að fjármagna aðgerðir stjórnvalda. Í dag köllum við söluskattinn virðisaukaskatt og það væri ekki góð leið í dag, virðulegur forseti, að gera slíkt því slíkt myndi umsvifalaust skila sér út í verðlag og leiða til hækkandi verðbólgu. En það er ekki þar með sagt að aðgerðir á skattahliðinni gætu ekki skilað árangri í þessum efnum en það þyrftu þá að vera sértækar aðgerðir sem væru þá sérstaklega hugsaðar til að draga úr þenslunni sem þessi nýja staða skapar. Það er sem sagt ekki fjármögnun aðgerða sem er aðalatriðið hérna þó að það sé vissulega meginatriði þessa tiltekna frumvarps, sem við styðjum nota bene heils hugar, heldur þarf jafnframt þessu að grípa til aðgerða sem hafa áhrif á efnahagslífið. Það þarf sem sagt, virðulegur forseti, að huga að beinum leiðum til að taka peninga úr umferð til að mæta þessu mögulega verðbólguskoti sem hættan er á að skapist.

Virðulegur forseti. Við í Samfylkingunni styðjum þetta frumvarp. Við viljum standa með Grindvíkingum og það þarf að gera það hratt og vel. En það þýðir ekki að við megum missa boltann við að halda þjóðhagslegu jafnvægi því hátt vaxtastig og verðbólga bitnar líka á Grindvíkingum, gleymum því ekki.