154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

717. mál
[17:57]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég held að við hv. þm. Stefán Vagn Stefánsson tölum svona nokkurn veginn sama tungumálið í þessum efnum og gerum okkur báðir grein fyrir því að þetta er auðvitað fjölþætt verkefni og það þarf að horfa á það frá öllum hliðum. Þar kemur líka inn að skoða hvort það séu þensluhvetjandi framkvæmdir fram undan sem hið opinbera stendur fyrir sem hugsanlega mætti færa til á milli ára. Það er klárlega þáttur í því að horfa á ríkisfjármálin með þeim hætti að við getum dregið úr þenslunni á meðan á þessu vandasama en samt ákaflega mikilvæga verkefni stendur og að við missum ekki boltann í því mikilvæga verkefni heldur reynum eftir fremsta megni að ná tökum á verðbólgunni í þessu landi og ná vonandi niður stýrivöxtunum líka því að það mun skila sér í pyngju okkar allra, bæði Grindvíkinga sem og allra hinna.