154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

717. mál
[18:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fína ræðu. Það sem hvatti mig til að koma hér upp var það þegar hv. þingmaður fór að ræða um að við værum komin að þolmörkum alls staðar, hvort sem það væri í lögreglunni eða heilbrigðiskerfinu. Þetta er allt saman rétt. Það sem vakti fyrir okkur í fjárlaganefndinni með þessum texta, þar sem við vorum að tala um framkvæmdir á vegum ríkisins, var hvort það væri hægt að fresta einhverjum framkvæmdum eða hliðra til innan ársins og búa þannig til svigrúm til að koma til móts við þann kostnað sem hlytist af þessu verkefni í Grindavík, sem var, þegar fjárlög voru samþykkt, algerlega óljós stærð og er í raun og veru enn. Hér hefur verið talað um efnahagsáhrifin og hv. þingmaður hefur nefnt þau og ég er sammála honum í því. Við áttum hér orðastað um það áðan. Það er hins vegar ljóst að stærsti hlutinn af því fjármagni sem er að komast núna í umferð kemur aftur inn á fasteignamarkaðinn. Hvaða leiðir sér hv. þingmaður á framboðshliðinni til þess að í raun og veru að milda það ástand sem þar mun væntanlega skapast eða menn hafa áhyggjur af að muni skapast?