154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

717. mál
[18:11]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Eitt af því sem ég hef gagnrýnt dálítið í fjárlagaferlinu undanfarið er þessi skortur á því að við fáum að sjá valkostagreiningar. Í lögum um opinber fjármál eru grunnstoðirnar í því hvernig við eigum að vinna okkur í gegnum bæði fjármálaáætlun og fjárlög þær að það sé kostnaðarmat, ábatagreining og valkostagreining þar sem hinir mismunandi valkostir eru kostnaðar- og ábatametnir, og svo að fá að sjá forgangsröðunina. Ekkert af þessu er í núverandi umfjöllun um fjármálaáætlun. Það var reynt í fyrstu fjármálaáætluninni, þar kom einn dálkur á eftir hverri stefnumótandi ákvörðun stjórnvalda þar sem var yfirleitt ekki fyllt inn í kostnaðarmatið en á einstakra stöðum kom: 500 milljónir. Svo voru næstu 20 reitir tómir og svo kom: 100 milljónir. Þetta var greinilega svo erfitt að þetta hvarf út úr næstu fjármálaáætlun, það var bara hætt að reyna. Staðan á þessu, að skoða alla möguleika og komast að því hvað henti best efnahagslega, byggðalega og frá öllum sjónarhornum — við erum því miður ekki þar enn þá. Við ættum að vera þar en við fáum ekki einu sinni að reyna.