154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

717. mál
[18:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að heyra það hjá hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni að hann telji líkur á því að hann og hans samflokksfólk muni styðja þetta frumvarp og ég fagna því, enda er þetta mjög mikilvægt skref. Þetta er það sem hefur verið kallað eftir af hálfu íbúa í Grindavík, að menn séu leystir úr snörunni. Það er það sem verið er að gera. Ég er hins vegar á aðeins öðrum stað en hv. þingmaður sem fer að tala um að þetta lán muni lenda á íslenskum skattborgurum. Íslenska ríkið borgar þetta lán eins og öll önnur lán sem íslenska ríkið tekur, það er engin breyting á því, þetta er bara lán. Við megum ekki gleyma samtryggingunni, þetta snýst um hana. Við erum að bregðast við hér fyrir hönd Grindvíkinga sem þjóð. Um það snýst málið. Ég hef alveg sömu áhyggjur og hv. þingmaður af verðbólgunni og ég er búinn að ræða það hér við aðra þingmenn, bæði innan fjárlaganefndar og utan, hér áður. En við skulum ekki gleyma því að verðbólgan er þó á niðurleið þannig að það komi fram. Mig langar að spyrja hv. þingmann, ég bara — bankaskattur, hækkun veiðileyfagjalds og breiðu bökin. Það er kallað eftir því að það verði gripið til aðgerða núna strax og við þurfum að grípa til aðgerða strax. Hvað erum við búin að ræða lengi hér um veiðileyfagjöld? Hvað heldur hv. þingmaður að umræða á Alþingi Íslendinga um það hver veiðileyfagjöldin ættu að vera myndi taka langan tíma? Eða um bankaskatt? (Forseti hringir.) Við eigum ekki að vera að blanda þessu tvennu saman að mínu viti. Við getum tekið umræðuna um veiðileyfagjöldin (Forseti hringir.) og bankaskattinn en hún á ekki að fara inn í þetta.