154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

717. mál
[18:35]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég kannski hljóp á mig með því að segja að við munum styðja þetta frumvarp. Við munum styðja við bakið á Grindvíkingum, svo sannarlega. En það er mikill galli á þessu frumvarpi hvað varðar fjármögnunina. Ég get svarað því til varðandi það að leggja á skatt að við höfum reynslu frá því í nóvember. Þá var lagt fram frumvarp vegna innviðanna í Svartsengi, varnargarða fyrir Svartsengi og Bláa lónið. Þá var keyrð í gegn skattheimta á einum degi og ekki einu sinni á einum degi, frá klukkan hálftvö eftir hádegi til kl. ellefu um kvöldið. Þá var búið að samþykkja skattheimtu sem átti að byrja 1. janúar 2024 og framkvæmdir voru í gangi strax í nóvember og desember og voru reyndar greiddar þar. Þannig að það var ekki mikið mál að setja á skattheimtu þá. En það breytir því ekki að við eigum að fara varlega, Alþingi Íslendinga, í að gefa lánsfjárheimildir. Við eigum að skoða það gaumgæfilega og líka hvers konar áhrif það hefur á efnahagslífið. Það er alveg deginum ljósara að lán sem verður tekið upp á 30 milljarða, segjum 20 milljarða, og síðan þessi 200 milljarða lánsfjárheimild, verður greitt með skattfé íslenskra borgara. Það er enginn annar sem borgar það nema íslenskt samfélag. Það er alveg klárt mál. Þar er raunverulega verið að skuldsetja, við getum sagt að það sé verið að setja á skattheimtu fram í tímann þegar það þarf að borga það lán. Það er það sem þetta snýst um. Á þessum tímum er líka mikil verðbólga. Við erum með 9,25% stýrivexti þannig að við verðum að ná verðbólgunni niður. Við verðum að fara varlega í það að dæla fé inn í samfélagið með lántökum, við verðum að fara mjög varlega í það og helst að fara í mótvægisaðgerðir. Við verðum að ná verðbólgu niður af því að það er skattur á heimilin að borga af húsnæðislánum sínum upp á fleiri hundruð þúsund. Það er snjóhengja sem bíður hérna eftir okkur sem mun falla á stóran hluta landsmanna núna í vor þegar skilmálabreytingar verða á lánunum. (Forseti hringir.) Það er þetta sem við þurfum að athuga, það er þetta sem við þurfum að skoða gaumgæfilega þegar við förum í lántökuheimildir.

(Forseti (ÁsF): Ég minni þingmenn á ræðutímann.)