154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[20:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta verkefni hefur verið stórt í sniðum og við erum hér að afgreiða mjög stórt mál, reyndar einstakt í okkar sögu. Ég hugsa að aðeins tíminn geti leitt það í ljós en ég vona sannarlega að þetta mál muni eldast vel, þessar ákvarðanir okkar, þegar við hér ákváðum, sem samfélagið er sem betur fer sammála okkur um, að þegar 1% þjóðarinnar lendir í slíkum hamförum komi hin 99% til aðstoðar. Ég vil nýta þetta tækifæri til að þakka bæði nefndinni fyrir störfin og starfsfólki í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og þeirri þverpólitísku nefnd sem vann málið með okkur. Við stöndum vörð um leiðarljósin þrjú; að gera fólki kleift að fjárfesta í nýju lífi á nýjum stað, lágmarka neikvæð áhrif á ríkissjóð og fá fjármálastofnanir með okkur. Svona geta sterk samfélög gert og það er ekki sjálfgefið og við erum hér að gera það saman. Mér finnst skipta máli að það sé nákvæmlega þannig.