154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[20:19]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við í þessum svokallaða samstarfshópi fengum að líta þetta frumvarp augum uppi í ráðuneyti fyrir tveimur vikum síðan og þá náðist ágæt sátt um að brunabótamatið skyldi vera 95%. Þegar málið var síðan tekið til nefndar kom í ljós að fleiri hundruð Grindvíkingar stóðu fyrir utan þetta. Þeir gátu ekki mátað sig inn í þetta frumvarp sem hér er til afgreiðslu. Að mestum hluta er þetta ungt fólk sem segir mér og segir öðrum að eign þess í húsnæðinu sínu í Grindavík hverfi við þetta frumvarp. Það er af þeirri ástæðu að mér finnst bara eðlilegt að við þingmenn hlustum á þær umsagnir sem berast okkur og af þeirri ástæðu tók ég ákvörðun um að leggja fram breytingartillögur, af því að ég tel eðlilegt að við hlustum á raddir fólksins.