154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[20:26]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eins og hér hefur komið fram er þetta stærsta skrefið sem við höfum tekið til þess að reyna að eyða óvissunni fyrir Grindvíkinga. Vinnan er búin að vera mjög mikil og ég verð að segja það hér að ég er stoltur af þeirri samstöðu sem þingið hefur sýnt á undanförnum vikum og mánuðum en ekki síst í þessu máli þar sem við byrjuðum með samráðshópi og áttum fundi í ráðuneyti efnahagsmála og síðan gekk málið til efnahags- og viðskiptanefndar þar sem enn frekari breytingar voru gerðar á málinu til bóta. Ég held að þetta verði Grindvíkingum til heilla en líka áminning til okkar að halda áfram á sömu braut og sýna samstöðu með Grindvíkingum hér eftir sem hingað til.