154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[20:47]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég heyrði það á hæstv. fjármálaráðherra að hann er ekki sáttur við mig. Ég græt það svo sem ekkert. Ég hef lagt það í vana minn að reyna að hlusta á þá skjólstæðinga sem ég er að vinna fyrir og þess vegna hef ég tekið þessa afstöðu. Ef fyrir hefði legið sú umgjörð sem á að skapa fyrir ákveðna hópa í Grindavík á fundum samstarfsnefndarinnar þá hefði afstaða mín verið allt önnur. Að því sögðu þykir mér miður að verið sé að fella þessa breytingartillögu, sem var gert áðan, en vil taka það fram að þrátt fyrir það er málið þannig úr garði gert að það er verið að hjálpa ýmsum, búa til réttarbætur sem skipta marga miklu máli. Það er verið að bæta við fólki sem er með kaupréttarsamninga, verið er að lengja tímabilið og veita fólki frekara ráðrúm til að ganga að þessum skilmálum. Að því sögðu lýsi ég vonbrigðum með að þessar breytingartillögur hafi ekki verið samþykktar.