154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

717. mál
[21:46]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða hér fjárauka tvö, sem lýtur eins og fyrri fjárauki, að aðgerðum er varða Grindavík og það ástand sem þar er uppi. Ég heyri það, og varð þess svo sem áskynja í störfum fjárlaganefndar, að ýmsar leiðir eru nefndar til fjármögnunar, svo sem skattheimta og annað. Ég held hins vegar að sú leið sem hefur verið valin núna sé mjög skynsamleg. Það hefur komið fram bæði í minnisblaði til fjárlaganefndar og á fundum nefndarinnar að það er óvíst hvað verður mikið notað af þessari 30 milljarða kr. heimild. Mér finnst hins vegar áhugavert, og í raun og veru fagna því, að ég og við erum búin að vera að ræða hér, m.a. í aðdraganda fjárlagaumræðunnar, um aðhaldssöm fjárlög og fulltrúar Pírata (Forseti hringir.) töluðu um að fjárlögin væru ekki aðhaldssöm heldur hlutlaus. Nú koma þeir hér upp og hafa áhyggjur af því að með þessari aðgerð verði þau hlutlaus en ekki aðhaldssöm. (Gripið fram í.)