154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

717. mál
[21:52]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það er auðvitað ekki í fyrsta skipti sem þessi ríkisstjórn virðist halda að með því að segja eitthvað verði það satt og það á við hér. Það á sannarlega við um fjárlögin eins og hefur verið nefnt hérna, þar sem var talað um að þau væru aðhaldssöm. En hvernig voru þau aðhaldssöm? Það er sett einhver flöt niðurskurðarkrafa á allt. Það er engin pólitísk forgangsröðun í gangi. Mál sem skipta máli, hlutir sem við eigum að vera að verja peningunum í, bæði til þess að lágmarka verðbólguhvetjandi áhrif þess sem er verið að gera til að vinna gegn þenslu, það er engin pólitísk hugsun í þeim aðgerðum, í því hvernig ríkisstjórnin ráðstafar fjármunum og hvernig hún aflar þeirra. Það að segja að eitthvað lágmarki verðbólguhvetjandi áhrif þýðir ekki að það lágmarki verðbólguhvetjandi áhrif. Það að segja að fjárlögin séu aðhaldssöm gerir þau ekki aðhaldssöm. (Forseti hringir.) Hér hefur einmitt verið nefnt að þetta er einfaldlega ekki rétt og það eru ekki bara okkar orð. Það eru orð margra sem hafa gert athugasemdir við hitt og þetta. (Forseti hringir.) Ég vildi bara taka þátt í að leiðrétta þetta sem kom hér fram.