154. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2024.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

27. mál
[23:24]
Horfa

Valgerður Árnadóttir (P):

Forseti. Árið 2023 var 41% umsókna um greiðsluaðlögun samkvæmt umboðsmanni skuldara synjað en vonir standa til að í kjölfar tilgreindra breytinga verði unnt að veita fleirum heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Umboðsmaður skuldara leggur til í umsögn að embættið fái skýra heimild til að samþykkja umsókn þrátt fyrir að grundvöllur fyrir synjun liggi fyrir ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Undir skilgreiningu á sérstökum aðstæðum falla veikindi eða erfiðar félagslegar aðstæður og frumvarp þetta veitir umboðsmanni heimild til að leggja heildstætt mat á hvert mál fyrir sig.

Við munum öll eftir máli Jakubs, ungs öryrkja í Keflavík, sem vakti gífurlega athygli og reiði í samfélaginu eftir að hann stóð uppi allslaus eftir að sýslumaður seldi einbýlishús hans á uppboði fyrir litlar 3 milljónir. Þá stóð fjölskyldan frammi fyrir því að vera borin út af heimili sínu, allt sökum þess að þau höfðu ekki áttað sig á því hvernig fasteignakerfið á Íslandi virkar. Jakub skuldaði nefnilega 2,5 milljónir króna í vanskilagjöld og vegna ógreiddra fasteignagjalda, trygginga og vatnagjalda. Jakub varð öryrki eftir alvarleg læknamistök sem áttu sér stað þegar hann var bara 13 ára og hann keypti húsið með það fyrir augum að þar með væri framtíðarheimili hans og fjölskyldunnar tryggt. Húsið staðgreiddi hann með bótunum sem hann fékk vegna þessara læknamistaka. Þegar húsið var selt á nauðungarsölu var það metið á 57 milljónir en sýslumaðurinn í Reykjanesbæ seldi það á litlar 3 milljónir. Uppsafnaðar skuldir Jakubs fóru í innheimtu, svo fjárnám og að lokum var boðað til nauðungarsölu. Jakub greindi frá því að hann hefði ekki haft hugmynd um að hann þyrfti að standa skil á áðurnefndum gjöldum. Hann hefði staðgreitt húsið og talið að þar með væri engin þörf á að greiða reikninga. Hann hefði heldur ekki gert sér grein fyrir því að það væri í nauðungarsöluferli og var því enginn á hans vegum viðstaddur uppboðið þegar húsið var slegið nýjum eigendum á þessar 3 milljónir.

Uppboðsverðið vakti töluverða reiði og margar spurningar. Í lögum um nauðungarsölu segir að ef sýslumaður meti fram komin tilboð í eign svo lág að þau séu í engu samræmi við markaðsvirði geti sýslumaður tekið ákvörðun um að uppboði verði haldið aftur. Þetta hafði sýslumaðurinn á Suðurnesjum ekki gert. Landsmenn áttu margir varla orð yfir þessu óréttlæti, að ungur öryrki væri sviptur tugmilljóna eign sinni sökum minniháttar skuldar og að útgerðarmaður, sem ekki hefur verið nafngreindur, hafi þarna grætt tugi milljóna á kostnað Jakubs og fjölskyldu.

Þroskahjálp gaf út yfirlýsingu í kjölfar fréttarinnar og sögðust samtökin hafa verulegar áhyggjur af framkvæmdinni í málinu sem væri í engu samræmi við skuldbindingar stjórnvalda samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Um væri að ræða fatlaðan mann sem sökum fötlunar sinnar ætti að njóta viðeigandi aðlögunar og viðeigandi og fullnægjandi stuðnings og leiðbeininga af hálfu hlutaðeigandi stjórnvalda. Beindu samtökin fyrirspurn til sýslumanns þar sem m.a. var spurt hvort embættið hefði leiðbeint og stutt Jakub, af hverju húsið hefði verið selt svona ódýrt, hvort Jakub hefði fengið allar upplýsingar sem hann þurfti og hvort upplýsingarnar hefðu verið þannig að hann gæti skilið þær.

Formaður Öryrkjabandalagsins, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, sagði að mál Jakubs væri ekki einsdæmi. Kerfið brást Jakubi. Það er sorglegt að það félagslega kerfi sem á að aðstoða einstaklinga í viðkvæmri stöðu hafi brugðist. Enginn virðist hafa leiðbeint honum og hans fjölskyldu um í hvað stefndi og hefðu lög sem þau sem við erum að ræða hér verið komin á hefði það nýst í tilviki Jakubs. Öryrkjabandalagið fagnar þessu frumvarpi og segir í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Líkt og fram kemur í greinagerð voru örorkulífeyristakar 45% þeirra sem leituðu greiðsluaðlögunar árið 2023. Sá hópur hefur lítil sem engin bjargráð til að vænka hag sinn og staða þeirra fer sífellt versnandi. ÖBÍ vill koma eftirfarandi áherslum á framfæri.

1. ÖBÍ fagnar viðbrögðum Félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins við ábendingum samtakanna um fatlað fólk í greiðsluvanda. Í greinargerð með lögunum segir að til að bregðast við þeim ábendingum mun embætti umboðsmanns skuldara setja í verklagsreglur sínar að við afgreiðslu og vinnslu umsókna frá fötluðum einstaklingum skuli litið til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sérstaklega ákvæða um viðeigandi aðlögun. ÖBÍ telur þetta skref í rétta átt, en minnir á mikilvægi þess að lög og reglur séu skýr. ÖBÍ óskar eftir að löggjafinn kveði fastar að orði og beini þeim tilmælum til umboðsmanns skuldara að embættinu beri að upplýsa fatlað fólk um réttindagæslu fatlaðs fólks og þá aðstoð sem þar býðst við upphaf greiðsluaðlögunar.

2. Í 32. gr. er fjallað um breytingar á öðrum lögum sem taka í gildi við gildistöku frumvarpsins. ÖBÍ telur þörf á að löggjafarvaldið geri einnig viðeigandi breytingar á lögum um nauðungarsölu nr. 23/1991 samhliða gildistöku frumvarpsins. Huga þarf sérstaklega að frumkvæðisskyldu stjórnvalda í samskiptum við viðkvæmustu hópa samfélagsins og tryggja að öll úrræði hafi verið reynd til þaula. Samskiptaleysi opinberra stofnanna má aldrei skerða aðgengi einstaklinga að lögbundinni þjónustu. ÖBÍ leggur til að löggjafarvaldið skerpi á upplýsingarskyldu sýslumanna á þann veg að sýslumanni beri að afla sér upplýsinga um hvort skuldari hafi óskað eftir aðstoð hjá umboðsmanni skuldara strax þegar skuldamál einstaklings berst sýslumannsembættinu. Sýslumaður skal upplýsa og leiðbeina þeim einstaklingum sem ekki hafa óskað eftir aðstoð umboðsmanns skuldara um úrræðið.“

Einnig bendir Öryrkjabandalagið á að stór hluti öryrkja sitji uppi með námslán sem þau tóku við menntun til starfa sem þau geta svo ekki stundað og eiga því erfitt með að greiða til baka á þeim bótum sem þau lifa eða reyna að lifa á.

Við Píratar studdum breytingartillögu hv. þm. Guðmunds Inga Kristinssonar um að námslán myndu falla inn í þetta úrræði. Það eru miklir fordómar í samfélaginu fyrir fólki sem skuldar. Þetta er viðkvæmur hópur og eru öryrkjar og þeir sem eiga við fíknivanda að stríða stór hluti hans. Þetta er oft hópur sem veit ekki hvert á að leita í vanda. Þess vegna er svo mikilvægt, eins og Öryrkjabandalagið segir, að það sé upplýsingaskylda um að láta fólk í viðkvæmri stöðu sem er í skuldaerfiðleikum vita hvað það getur gert.

Það vill svo til að ég á vin sem þurfti að leita til réttindagæslu fatlaðra hér um daginn og það vildi ekki betur til en að það var ekki einu sinni aðgengi að þeirri skrifstofu. Þetta er einstaklingur sem er vel upplýstur og veit réttindi sín og ætlaði að leita þeirra en hjólastóllinn hans komst ekki inn í húsnæði réttindagæslu fatlaðs fólks. Þetta er eitthvað sem er táknmynd fyrir þann vanda sem við stöndum frammi fyrir, að manneskja sem jafnvel veit hvað hún á að gera til að fá hjálp komist ekki einu sinni inn í húsnæðið til að biðja um þá aðstoð. Hvernig á þá einstaklingur sem veit ekki hver réttindi hans eru og hvert á að leita að fá slíka aðstoð?

Í tilviki Jakubs í Reykjanesbæ brást kerfið honum. Félagslega kerfið brást honum, sýslumaður brást honum og heilbrigðiskerfið, sem hefði kannski getað upplýst hann um þetta á einhverjum tímapunkti vegna nándar sinnar við hann, brást honum.

Það er mikilvægt að við tökum á okkar viðkvæmu hópum í samfélaginu. Fólk er ekki einungis í skuldavanda vegna hárrar verðbólgu heldur vegna ýmissa vandamála og takmarkana í kerfinu sem gera það að verkum að það getur ekki lifað út mánuðinn. Það á sérstaklega við um einstæða foreldra sem eru á lágum launum en lægstu laun í dag eru um 400.000 kr. Eins og við vitum kostar húsnæði á leigumarkaði vel yfir 200.000–300.000 kr. á mánuði og það segir sig því sjálft að erfitt er og nánast ómögulegt að lifa á þessum launum. Fólk grípur því til úrræða sem eru kannski ekki svo skynsamleg, eins og til smálána, og lendir jafnvel í skuldavanda með bæði fyrri lán, húsnæðislán, námslán og þau lán sem venjulegt fólk þarf oft að slá til að eignast eitthvað. Eins og við vitum eru vextir það háir að það er fljótt að safnast saman og afborganir í dag, eins og vaxtaprósentan er, eru bara ekki á allra færi.

Við munum sjá á næstunni að ef ekki verður tekið á verðbólguvandanum og ef stýrivextir lækka ekki á Íslandi munu fleiri lenda í skuldavanda heldur en við erum með núna. Þetta er ekki vandi sem fer af sjálfu sér og þess vegna er þetta frumvarp alveg ótrúlega mikilvægt og tímabært. Eftir að hafa skimað yfir umsagnir vona ég að margt af því hafi verið tekið til greina og að við bætum okkur sem samfélag við að taka utan um þennan viðkvæma hóp, upplýsum fólk um réttindi sín og grípum þau þegar þau þurfa á að halda.

Ég fagna þessu frumvarpi og hef ekki fleiri orð um það.