154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

samkeppniseftirlit á Íslandi og innleiðing skaðabótatilskipunar ESB .

[15:11]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. Það gleður mig að heyra að hæstv. forsætisráðherra er sammála okkur í Samfylkingunni hvað varðar þetta málefni. Ég vil samt ítreka stöðu Samkeppniseftirlitsins og þá vanfjármögnun sem eftirlitið hefur staðið frammi fyrir og kalla eftir viðbrögðum hvað það varðar frá hæstv. forsætisráðherra. Þetta er alvarleg staða, sérstaklega í ljósi þess að við sjáum að í þessu máli skipafélaganna kærðu félögin einstakar aðgerðir eftirlitsins 14 sinnum til dómstóla og töpuðu í öllum tilvikum. Það liggur alveg fyrir að þetta er algjört einsdæmi og það var fyrst þegar þetta lá fyrir sem Eimskip ákvað að játa sín brot. Þannig að góð fjármögnun eftirlitsins er lykilatriði hjá stjórnvöldum í dag. En ég vil líka að það komi hér fram og vil varpa því til hæstv. ráðherra að auðvitað er líka hægt að innleiða efnisreglur tilskipunarinnar í íslensk lög, það þarf ekki að bíða eftir EFTA í þessu samhengi. Ég hvet hæstv. forsætisráðherra líka til þess að þrýsta enn frekar á þá aðila sem koma að samningagerðinni gagnvart EFTA-ríkjunum vegna þess að við eigum auðvitað að hafa frumkvæði að þessu máli fyrir íslenskt hagkerfi.