154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

frumvarp um breytingu á lögum um útlendinga.

[15:31]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Það gæti orðið þröngt um í andsvörum hér á eftir þegar hæstv. dómsmálaráðherra mælir fyrir útlendingafrumvarpi sínu og þess vegna langar mig til að taka forskot á sæluna. Nái frumvarp hæstv. ráðherra fram að ganga eins og það liggur fyrir í þingskjali, hvaða séríslensku reglur eða seglar, eins og það er stundum kallað, verða enn til staðar í löggjöfinni að frumvarpinu afgreiddu?

Sömuleiðis langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða séríslensku reglur, eins og þær eru kallaðar, eru það sem horfið var frá að fella niður frá því að frumvarpið var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda 20. febrúar síðastliðinn þangað til það er lagt fram núna?