154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

efling náms og samræming einkunnagjafar í grunnskóla .

[15:42]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um mikilvægi heildstæðrar nálgunar á þetta og það sé skoðað samspilið sérstaklega milli grunnskóla og framhaldsskóla þegar við nálgumst þessi mál. Það held ég að sé grunnurinn að því að okkur er ekki að takast upp og með þeim hætti sem þessar rannsóknir sýna. Það er hins vegar mikilvægt að við áttum okkur á því hvernig við ætlum að gera það og það er næsta verkefni. Af því að þingmaðurinn nefndi sérstaklega fjárhagsleg málefni og framhaldsskólastigið þá vil ég segja að framhaldsskólastigið er að takast á við sömu áskoranirnar sem eru að verða í íslensku samfélagi varðandi aukna fjölbreytni. Við erum með vaxandi hóp nemenda með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn sem koma inn í framhaldsskólana. Við erum með vaxandi hóp nemenda sem þurfa að fara á svokallaðar starfsbrautir og við erum með vaxandi hóp sem vill fara í starfs- og verknám. Á þetta var bent við síðustu fjárlagagerð og við síðustu fjármálaáætlun og mikilvægt að það sé brugðist við þessu. Það var gert að hluta til (Forseti hringir.) á yfirstandandi ári en ef við ætlum að láta framhaldsskólakerfið geta staðið undir því sem það þarf að standa undir, þá þurfum við að halda því áfram í fjármálaáætlun og fjárlögum næstu ára.