154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[16:23]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Ég er auðvitað með ótal spurningar en vona að við fáum tækifæri til að ræða þetta mál nánar hér í umræðunni. Ég ætla að byrja á að spyrja hæstv. ráðherra út í fyrirhugaða breytingu sem lýtur að því að stytta gildistíma dvalarleyfa fólks sem sækir um vernd. Nú er ekki eingöngu verið að vega að því fólki sem hæstv. ráðherra telur ekki í neyð, svo sem fötluðu fólki, þunguðum konum og börnum sem leita hingað af götunni í Grikklandi, heldur er þeim breytingum sem lagðar eru til þarna beinlínis beint gegn því fólki sem hið þunglamalega kerfi sem ríkisstjórnin og flokkur hæstv. ráðherra hefur komið á fót hér á landi telur náðarsamlegast eiga skilið að fá vernd hér á landi. Er þetta gert með því að stytta gildistíma dvalarleyfa fólks á flótta með þeim rökum einum að samræma eigi löggjöfina hinum Norðurlöndunum, sem er í fyrsta lagi undarlegt þar sem löggjöfin á Norðurlöndunum er ekki samræmd að þessu leyti.

Þar sem engin önnur rök eru færð fyrir þessari tillögu, hvorki að þetta auki skilvirkni, hjálpi inngildingu eða annað, langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig styður þessi breyting við heildarsýn ríkisstjórnarinnar um inngildingu og það að taka vel á móti þeim sem hæstv. ráðherra telur eiga rétt á vernd hér, með því annars vegar að senda þau skilaboð að þau séu ekki velkomin, með því að stytta dvalarleyfistímann — er ég ekki ólíklegri til þess að vilja læra íslensku ef ég fæ dvalarleyfi í eitt ár (Forseti hringir.) heldur en í fjögur? Hins vegar: Hvernig á það að auka skilvirkni að tvöfalda fjölda umsókna um endurnýjun (Forseti hringir.) með því að helminga gildistíma dvalarleyfanna?