154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[16:34]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinni spurningu sína. Hann spyr hér hvort við getum tekið á móti þessum fjölda, spurði um það í fyrri spurningu sinni. Á síðustu tveimur árum höfum við fengið um 9.000 umsóknir um alþjóðlega vernd hér á Íslandi. Á ríflega tíu árum hefur umsóknum fjölgað um 3.700%. Kostnaður hefur farið úr 400 milljónum í 20 milljarða, ríflega. Hv. þingmaður spyr hvað ég ætli að gera. Það er alveg einboðið að það þarf að vera regluleg endurskoðun á útlendingalögum og það hafa þjóðirnar í kringum okkur gert. Við þurfum sífellt að vera með þennan málaflokk undir smásjá og gera breytingar til að bregðast við breyttri stöðu. Þetta frumvarp sem hér er lagt til er eitt skref af mörgum. Ég hef sagt það og mun segja það hér í þessu svari mínu að landamærin eru ekki vandamál, (Forseti hringir.) það er útlendingalöggjöfin sem er vandamál.