154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[16:41]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Ég ætla að gera aðra tilraun til að ná fram upplýsingum sem ég spurði um í fyrirspurnatíma fyrr í dag. Þar svaraði hæstv. ráðherra, aðspurð hvaða breytingar hefðu verið gerðar hvað þessar séríslensku málsmeðferðarreglur, íslensku seglana, milli framlagningar í samráðsgátt og þangað til málið var lagt fram í þinginu, að horfið hefði verið frá því annars vegar að draga úr talsmannaþjónustu á fyrra stigi stjórnsýslumeðferðar og hins vegar að fella niður svokallað 18 mánaða reglu, að hún haldi sér áfram. Síðan sagði hæstv. ráðherra það sem vakti athygli mína, með leyfi forseta:

„En eftir að málið hafði verið í meðförum í samráðsgátt þá ákvað ráðherra að gera ekki þá breytingu að svo stöddu.“ — Sem sagt varðandi þessi tvö atriði.

Er hæstv. ráðherra að boða frekari breytingar á útlendingalögunum strax á þessu þingi? Því að ef svo er ekki þá liggur fyrir að þessum tveimur séríslensku málsmeðferðarreglum verður væntanlega viðhaldið um eitthvað lengri tíma. Það er þetta atriði sem snýr að því hvort ráðherra hafi ákveðið að gera ekki breytingar að svo stöddu. Er hæstv. ráðherra að reikna með frekari breytingum á útlendingalögum á þessu þingi?