154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[16:45]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að fara nokkrum orðum um það hvernig ég held að við sem löggjafi ættum að nálgast verndarkerfið, það regluverk og þá umgjörð sem við höfum komið okkur upp vegna umsókna um alþjóðlega vernd. Markmiðin eru skýr samkvæmt lögum um útlendinga, að tryggja mannúðlega og skilvirka málsmeðferð. Við erum bundin af flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasáttmála Evrópu, en sem fullvalda ríki höfum við umtalsvert svigrúm um það hvernig regluverkinu og framkvæmdinni er háttað. Það er fullveldisréttur okkar sem þjóðar að hafa stjórn á landamærunum okkar.

Þá komum við að jafnvægislistinni sem stjórnvöld og stjórnmálamenn sem setja lögin standa frammi fyrir í flóknum heimi. Við viljum standa vörð um mannréttindi fólks og taka þeim opnum örmum sem sannarlega eru á flótta, en þá þurfum við líka að gæta þess að kerfin okkar standi undir verkefninu og kostnaður fari ekki úr böndunum. Þá þurfum við að horfast í augu við að fjöldi skiptir máli, að það eru takmörk fyrir því hversu mörgum við getum tekið vel á móti á hverjum tíma.

Hér komum við að algjöru grundvallaratriði: Það hversu opið eða lokað regluverkið er í hverju ríki fyrir sig hefur áhrif á það hvert fólk leitar, hversu margir sækja um vernd á hverjum stað. Við sem viljum geta tekið vel á móti fólki, við getum ekki lokað augunum fyrir þessu. Við þurfum að gæta þess að bæði reglurnar sjálfar og framkvæmd reglnanna sé ekki algerlega úr takti við það sem tíðkast í löndunum í kringum okkur, að regluverkið og framkvæmd reglnanna sé ekki þannig að umsækjendur um alþjóðlega vernd leiti miklu frekar til Íslands en til annarra landa. Þannig hljóta ábyrgir stjórnmálamenn að nálgast verkefnið. Ekki bara út frá mannúð og mildi heldur líka út frá ákveðinni varkárni, raunsæju mati á því hvaða áhrif mikil fjölgun umsókna á skömmum tíma hefur á verndarkerfið okkar, á stjórnsýsluna og á samfélagið í heild.

Við eigum nýlegt dæmi um það hvað getur gerst þegar stjórnsýsluframkvæmd hér á Íslandi er algerlega á skjön við framkvæmd í nágrannaríkjum. Þá er ég að tala um hina séríslensku meðhöndlun á umsóknum fólks frá Venesúela. Íslensk stjórnvöld ákváðu að veita þessum umsækjendum viðbótarvernd skilyrðislaust, óháð einstaklingsbundnum aðstæðum. Ekkert annað ríki í Evrópu nálgaðist umsóknir ríkisborgara frá Venesúela með þessum hætti. Þarna voru send mjög afgerandi skilaboð út í heim, og umsóknum fjölgaði hratt og örugglega í kjölfarið, án þess að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sæju ástæðu til að bregðast við.

Árið 2022, á sama tíma og við vorum að taka á móti flóttafólki frá Úkraínu, voru umsóknir frá ríkisborgurum Venesúela 1.209 hér á Íslandi en 94 í Noregi, 72 í Svíþjóð og fimm í Finnlandi. Þegar svo reynt var að vinda ofan af þessari framkvæmd voru umsóknir settar á hilluna og fólk látið bíða mánuðum saman á framfæri hins opinbera án atvinnuréttinda. Það er ekki bara ómannúðlegt heldur líka rándýrt.

Það er þessi klunnaskapur í stjórnsýslunni sem er meginástæða þess að kostnaður vegna verndarkerfisins fór úr böndunum árin 2022 og 2023. Umsóknum fækkaði milli ára en kostnaður jókst fyrst og fremst vegna þessa langa málsmeðferðartíma. Hér er um að ræða heimatilbúinn vanda sem Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki firrt sig ábyrgð á, enda hefur flokkurinn farið með dómsmálaráðuneytið allan þennan tíma og Útlendingastofnun lýtur yfirstjórn dómsmálaráðherra. Ekkert í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar, né í frumvarpinu sem samþykkt var hér á Alþingi í fyrra, er til þess fallið að koma í veg fyrir að þessi saga, sagan af meðferð Venesúelaumsókna, endurtaki sig. Það er ekkert tekið á aðstæðum eins og þessum.

Nú hefur ríkisstjórnin kynnt aðgerðapakka undir yfirskriftinni Heildarsýn í útlendingamálum. Þar er margt ágætt og ýmis mikilvæg atriði er varða inngildingu, að sama skapi afgerandi viðurkenning á því að við verðum að hraða málsmeðferð í verndarkerfinu, við verðum að stytta málsmeðferðartíma vegna þess að það er bæði ómannúðlegt og kostnaðarsamt að láta fólk bíða lengi eftir niðurstöðu.

Yfirlýst markmið þessa tiltekna frumvarps er að færa löggjöfina nær þeim reglum sem eru við lýði á hinum Norðurlöndunum, að auka skilvirkni innan stjórnsýslunnar og tryggja hagræðingu við nýtingu fjármagns. Þetta eru allt markmið sem ég styð, og þetta eru markmið sem falla vel að þeirri heildarhugsun í útlendingamálum sem ég rakti hér áðan. Það verkefni sem Alþingi og einkum allsherjar- og menntamálanefnd eiga nú fyrir höndum er í mínum huga fyrst og fremst það að rýna hvort og að hvaða marki hvert og eitt ákvæði frumvarpsins þjónar raunverulega þessum markmiðum.

Ég ætla að nota 1. umr. hér til að vekja athygli á nokkrum atriðum sem ég tel ástæðu til að allsherjar- og menntamálanefnd skoði sérstaklega. Við skulum þá bara byrja á 1. og 2. gr. frumvarpsins. Nú er það þannig að hingað til hefur málsmeðferðartíminn verið talsvert lengri hjá Útlendingastofnun heldur en hjá kærunefnd útlendingamála, um þetta liggja fyrir opinber gögn. Þess vegna er umhugsunarvert að þær breytingar á stjórnsýslukerfinu sjálfu sem hér eru lagðar til snúa eingöngu að kærunefndinni, ekki að Útlendingastofnun. Það breytir ekki því að ég held að það sé full ástæða til að fækka nefndarmönnum í kærunefndinni og leita leiða til að skapa aukinn sveigjanleika í störfum hennar. Hér er lagt til að í málum af ákveðnu tagi dugi að einn nefndarmaður úrskurði. Það væri fróðlegt að vita, og ég held að nefndin ætti að grennslast fyrir um það, hvort einhver fordæmi séu fyrir slíku hjá sjálfstæðum úrskurðarnefndum í stjórnsýslunni, en auðvitað er það þannig að í stjórnsýslunni almennt eru nánast á hverjum degi teknar stórar og jafnvel íþyngjandi ákvarðanir, jafnvel af einhverjum einum starfsmanni, án þess að litið sé á það sem einhvers konar réttarspjöll.

Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að undanþáguákvæði 2. mgr. 36. gr. laganna falli brott, ákvæði um að umsóknir einstaklinga um alþjóðlega vernd skuli teknar til efnislegrar meðferðar vegna sérstakra tengsla og sérstakra ástæðna jafnvel þótt umsækjandi sé með umsókn til meðferðar í öðru Dyflinnarríki eða hafi fengið alþjóðlega vernd annars staðar. Þetta er meiri háttar breyting. Þótt það séu sárafá mál á hverju ári sem hafa verið tekin til efnislegrar meðferðar á þessum grundvelli, og hvað þá leitt til verndarveitingar, þá er alveg ljóst að þetta ákvæði kallar á umfangsmikið mat af hálfu stjórnvalda og þyngir þannig málsmeðferðina.

Auðvitað hljóta að hringja viðvörunarbjöllur þegar Ísland reynist mörg ár í röð vera það Evrópuríki sem fær hlutfallslega flestar umsóknir frá einstaklingum sem þegar njóta verndar í öðru Evrópuríki og það er umhugsunarvert hve miklum tíma og hve miklum starfskröftum er þannig varið í að rýna þessar umsóknir sem er svo hafnað í 90% tilvika. Ég held því að við komumst ekkert hjá því að íhuga alvarlega hvort þessi regla eigi rétt á sér, hvort það sé ástæða til að þrengja hana eða afnema með öllu. Nefndin hlýtur að fara rækilega yfir það hvaða afleiðingar það mun hafa.

Það sem við þurfum þá líka að skoða — þetta kom hv. þm. Dagbjört Hákonardóttir inn á áðan í andsvari — er hvernig ákvæði 3. mgr. sömu greinar og 42. gr. sömu laga sem þar er vísað til verður þá beitt í kjölfarið. Ég er að tala um „non-refoulement“-regluna, bannið við því að vísa fólki brott eða endursenda þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu. Þessi regla kallar auðvitað líka á ákveðna rannsókn og talsvert mat sem við getum ekkert vikið okkur undan samkvæmt þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem við höfum undirgengist. Raunar hafa Evrópuríki verið dæmd brotleg fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu fyrir að vanrækja skyldur sínar í þessum efnum. Ég vil því benda á að með brottfalli 2. mgr. má ætla að það muni í auknum mæli reyna á þessa „non-refoulement“-reglu.

Ég ætla rétt að skjóta því hér inn, af því að hæstv. dómsmálaráðherra hélt því fram áðan að þetta væri í fimmta skipti sem ráðherra Sjálfstæðisflokksins reyndi að fella brott 2. mgr. 36. gr., að þetta er nú bara vitleysa. Þetta er í fyrsta skipti sem ráðherra Sjálfstæðisflokksins reynir að fella brott 2. mgr. 36. gr. Auðvitað hefur verið reynt að hræra í þessu ákvæði með minni háttar breytingum en þetta er í fyrsta skipti sem flokkurinn reynir þetta og ég held að það þurfi bara að fá yfirvegaða rýni í allsherjar- og menntamálanefnd á því hvort þetta sé skynsamlegt.

Víkjum þá að breytingum á gildistíma dvalarleyfa, styttingu hans. Hæstv. ráðherra hélt því líka fram áðan að þetta myndi auka skilvirkni. En það eru engin skilvirknirök færð fyrir þessu í frumvarpinu og í greinargerð þess. Ég held að það væri gott ef Alþingi fengi þá einhvers konar skýringar á því hvernig þetta muni auki skilvirkni. Á hitt ber að líta að auðvitað er það þannig þegar verið er að veita fólki viðbótarvernd að aðstæður í heimaríki geta breyst mjög hratt og þá er ekki nema eðlilegt að gildistími taki að einhverju leyti mið af því. Á móti kemur að styttri gildistími dvalarleyfa gæti leitt til aukinnar vinnu og aukins álags hjá Útlendingastofnun við afgreiðslu umsókna um endurnýjuð leyfi þar sem mun þurfa að endurmeta oftar stöðu fólks og kanna oftar aðstæður í ríkjum sem var flúið frá. Það leiðir auðvitað ekki til aukinnar skilvirkni og minni kostnaðar í kerfinu heldur þvert á móti. Ég held að það sé full ástæða til þess að þessi fyrirsjáanlegu áhrif og kostnaðurinn af þeim verði rýndur sérstaklega en auðvitað hefði farið betur á því að það hefði verið gert í greinargerð frumvarpsins ef því er raunverulega haldið fram að þessi breyting eigi að auka skilvirkni.

Þá eru það fjölskyldusameiningarnar. Þetta er nú kannski það atriði í þessu frumvarpi sem ég klóra mér helst í kollinum yfir, þessi tveggja ára biðtími eftir fjölskyldusameiningu sem á að innleiða hjá þeim sem hafa fengið samþykkta viðbótarvernd. Hingað til hafa réttaráhrif alþjóðlegrar verndar, þessarar hefðbundnu verndar, og svokallaðrar viðbótarverndar verið þau sömu; dvalarleyfi á Íslandi til fjögurra ára og réttur til fjölskyldusameiningar. Með þessu frumvarpi er hins vegar búið til ákveðið flækjustig þarna. Það er lagt til að réttaráhrifin verði mismunandi eftir því hvort fólk fær viðbótarvernd eða hefðbundna vernd og það hefur hingað til verið frekar erfitt að greina á milli hvort á við um aðstæður fólks. Réttaráhrifin hafa hins verið þau sömu þannig það hefur ekki reynt á þetta álitaefni fyrir kærunefnd útlendingamála eða dómstólum. Það hefur ekki verið tekist á um það. Fólk sem hefur verið að fá viðbótarvernd hefur ekki verið að kæra þá niðurstöðu og óska sérstaklega eftir hefðbundinni vernd.

Það er augljóst að þetta mun breytast með þessu frumvarpi. Staða þeirra sem fá þessa hefðbundnu alþjóðlegu vernd verður talsvert sterkari að því er varðar fjölskyldusameiningu heldur en staða hinna. Hvaða áhrif mun þetta hafa á málshraða og skilvirkni í kerfinu? Því er heldur ekki svarað í greinargerð þessa frumvarps og ég legg til að allsherjar- og menntamálanefnd fari yfir það, fari yfir áhrifin af þessu aukna flækjustigi og þeim lagalega ágreiningi sem mun leiða af þeim.

Ég held reyndar að það sé líka full ástæða til að velta fyrir sér hvaða áhrif hertar reglur um fjölskyldusameiningar munu hafa á inngildingu, hvort hér sé hugsanlega verið að búa til aðstæður þar sem fólk verður einangrað og einmana, þarf að bíða í von og óvon eftir því að fá að sameinast fjölskyldumeðlimum sem eru jafnvel í sárri lífshættu; það er auðvitað ekki uppskrift að farsælli inngildingu, enda hafa mjög fá ríki í Evrópu farið þá leið að innleiða svona biðtíma og það er rakið ágætlega í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu yfir Danmörku þar sem bent er á að aðeins fimm önnur Evrópuríki hafi farið þessa leið. Að þessu leyti er Ísland í raun að fjarlægjast það sem tíðkast í Evrópu — sem gengur þvert á yfirlýst markmið frumvarpsins og ég held að þingheimur ætti að vera meðvitaður um þetta.

Rétt undir lokin, eins og ég sagði hér áðan: Við þurfum að nálgast verndarkerfið og útlendingalöggjöfina út frá kröfunni um mannlega reisn og að mannréttindi séu virt en líka út frá sjónarmiðum um skilvirkni og raunsæi, að kerfið sé sjálfbært og kostnaður fari ekki úr böndunum. (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með þennan málaflokk í meira en tíu ár og brugðist, hvort sem við horfum á hlutina út frá mannúð eða út frá skilvirkni. Við í Samfylkingunni munum halda áfram að halda flokknum við efnið.