154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[17:05]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum stödd í 1. umræðu um stórt og mikið frumvarp. Ég sagði áðan í ræðu minni að ég styddi eindregið markmið frumvarpsins um að fækka tilhæfulausum umsóknum, um að nýta fjármuni betur og auka skilvirkni í kerfinu. Ég benti hins vegar á ákveðin atriði sem ég tel að allsherjar- og menntamálanefnd þurfi að skoða hvort samræmist raunverulega markmiðum frumvarpsins, líka það atriði að færa löggjöfina á Íslandi nær því sem tíðkast í löndunum í kringum okkur. Núna lít ég svo á að verkefni allsherjar- og menntamálanefndar og Alþingis sé einmitt að rýna þetta frumvarp út frá þessum markmiðum, hvort einstök efnisatriði samræmist þeim raunverulega. Eins og hæstv. dómsmálaráðherra heyrir eflaust þá er ég jákvæður gagnvart sumum þeirra breytinga sem lagðar eru til en með fyrirvara gagnvart öðrum. En ég styð eindregið markmið frumvarpsins og ég held og (Forseti hringir.) ég vona að það geti fengið yfirvegaða og góða meðferð hér í þinginu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)