154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[17:14]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir sitt andsvar. Já, það er mikill áhugi á þessu og á meintri stefnubreytingu eða ekki stefnubreytingu. Ætli það megi ekki segja að það sé einhver nýr tónn, nálgun sem tekur að einhverju leyti meira mið af skilvirkni- og raunsæissjónarmiðum en áður. Við í Samfylkingunni höfum auðvitað gagnrýnt mjög harðlega á undanförnum árum hvernig haldið hefur verið á þessum málum og auðvitað svíður mest þegar brotið er á réttindum fólks, t.d. þegar hér var lögfest algerlega séríslensk regla um að svipta varnarlaust fólk húsnæði og framfærslu. Auðvitað greiddi Samfylkingin atkvæði gegn því. Þetta er leið sem engin önnur Norðurlandaþjóð hefur farið og ég held að alþjóð viti nú alveg hvers konar óreiða var búin til með þessu lagaákvæði sem ráðuneytin gátu ekki einu sinni komið sér saman um hvernig ætti að framkvæma og hvaða réttaráhrif það raunverulega hefði. (Forseti hringir.) Ætli ég verði ekki að svara seinni spurningunni í síðara svari við andsvari.