154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[17:19]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Í mars 2023 kallaði ég kærunefnd útlendingamála fyrir allsherjar- og menntamálanefnd og óskaði eftir því að nefndin gerði grein fyrir því hvers vegna hún veitti skilyrðislausa viðbótarvernd til handa íbúum Venesúela þvert á úrskurði Útlendingastofnunar og annarra ríkja í Evrópu. Á þessum fundi gerðist það að Samfylkingin, Viðreisn og Píratar bókuðu sérstaklega gegn mér og mínum málflutningi í þessari nefnd. Samfylkingin sá ekkert athugavert við það að veita íbúum frá Venesúela viðbótarvernd og gerði lítið úr mínum málflutningi og sagði mig fara offari í nefndinni. Þá vil ég spyrja hv. þingmann: Er þetta ekki klárlega stefnubreyting af hálfu Samfylkingarinnar?