154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[17:38]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar til að beina nokkrum spurningum til hv. þingmanns. Nú hefur umræðan því miður verið svolítið smættuð niður í það hvort fólk vilji opna landamærin eða loka landamærunum, svona í almennri umræðu og reyndar í orðræðu ráðherra ríkisstjórnarinnar líka því miður, vegna þess að þetta er auðvitað bæði einföldun og útúrsnúningur eins og hv. þingmaður held ég að sé mér sammála um. Nú veit ég að hv. þingmanni er kunnugt um ákveðnar heimildir sem við höfum til þess að loka landamærunum ef svo mætti kalla. Við erum auðvitað hluti af Schengen-samstarfinu þannig að landamæri okkar eru annars vegar ytri landamæri alls svæðisins og þau eru tiltölulega frjáls innbyrðis en líkt og hv. þingmaður kom að í ræðu sinni eru til ákveðnar heimildir fyrir ríki til að loka landamærunum. Mig langar til að spyrja hv. þingmann bara hreint út: Er hann á þeirri skoðun að við eigum að beita slíkum heimildum hér á landi eins og staðan er, jafnvel þó að það hafi áhrif á ferðafrelsi okkar og þó að það hafi áhrif á komu annarra einstaklinga?

Mig langaði líka að bæta við spurninguna: Telur hv. þingmaður þörf á því að takmarka komu ríkisborgara annarra Evrópuríkja til landsins? Eina leiðin til þess er sannarlega annaðhvort að beita undantekningarákvæðunum Schengen-samstarfsins, sem sennilega myndu þó ekki duga til, eða einfaldlega segja okkur úr EES-samstarfinu, segja okkur úr Schengen-samstarfinu eða með öðrum ráðum, þar sem nú eru mun fleiri einstaklingar sem flytja hingað til lands á ári hverju frá þeim ríkjum heldur en koma hingað til að leita verndar.