154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[17:44]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Varðandi fjölda umsókna tel ég að Ísland uppfylli alþjóðlegar skuldbindingar sínar með því að taka á móti 80 umsóknum á ári, jafnvel 60 umsóknum á ári. Okkur ber engin skylda að taka á móti 582 umsóknum og ég er að tala um það út frá 100.000 manns. Við eigum ekki að vera að taka á móti 6.000 umsóknum á ári eða 4.500 eða 4.200 umsóknum á ári. 4.000–5.000 umsóknir á ári er bara alltof mikið. Ísland er uppselt. Við eigum bara að segja: Við tökum ekki á móti fleiri umsóknum. Hingað og ekki lengra.

Við erum ekki að brjóta alþjóðlegar skuldbindingar með því að gera það. Við erum ekki að gera það á nokkurn einasta hátt. Það er bara þannig. Heldur einhver að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna fari að koma til Íslands og segja: Nei, heyrðu, þið tókuð ekki á móti 4.000–5.000 umsóknum eins og þið hafið gert undanfarin ár, þið eruð að brjóta alþjóðlegar skuldbindingar? Það myndi aldrei nokkurn tímann ganga upp að halda því fram að við værum að brjóta alþjóðaskuldbindingar okkar með því að taka á móti svipðum fjölda og hin Norðurlöndin og með því að segja: Ísland er uppselt, Ísland er fullt, við getum ekki tekið á móti fleirum, svo einfalt er það, með innra eftirliti og landamæraeftirliti.

Varðandi síðari úrskurð kærunefndar: Já, ég tel að það hafi verið undir pólitískum þrýstingi. Ég tel líka að það að við skyldum hafa þurft að bíða mánuðum saman eftir því að kærunefnd útlendingamála skipti um skoðun sé algjört hneyksli og sýni vanmátt þessarar stofnunar í sínu versta ljósi. Við þurftum að bíða eftir því að hv. kærunefnd útlendingamála skipti um skoðun af því að við hér á Alþingi Íslendinga höfum ekki manndóm í það að spyrna við fæti og stoppa áhrifin af fyrri úrskurðinum, alveg eins og við gerðum í úrskurðinum varðandi skotvopnin þegar Alþingi steig fram og sagði: Við ætlum að breyta lögunum af því að úrskurðurinn um safnvopnin var vitlaus, það var rangur úrskurður. Ég tel að þetta hafi verið stórkostleg mistök. Af hverju segi ég það? Það eru 1.600 Venesúelabúar sem þarf að flytja sennilega til Venesúela núna með flugi og tilheyrandi kostnaði (Forseti hringir.) og vinnu vegna þess að Alþingi steig ekki niður fæti á sínum tíma. Við þurftum að bíða og það mun kosta hundruð milljóna króna.