154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[18:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir hennar framsögu og þakka henni fyrir að hafa náð þessari heildarsýn meðal stjórnarflokkanna um þennan mikilvæga málaflokk sem við þurfum að gera breytingar á vegna þess að við þekkjum það öll að ríkt hefur ákveðið stjórnleysi í þessum málaflokki. Við ætlum okkur að ná tökum á þessum málum. Hingað til landsins streymir fólk sem aldrei fyrr og sækir um alþjóðlega vernd og markmið þessa frumvarps, eins og hefur komið fram, er að fækka umsóknum og stytta málsmeðferðartímann. Auk þess er afar mikilvægt að í þessu frumvarpi er verið að afnema íslenskar sérreglur sem gera það að verkum að Ísland verður svona aðlaðandi til að sækja hér um vernd og þess vegna er nauðsynlegt að samræma löggjöfina því sem er á Norðurlöndunum vegna þess að straumurinn fer þangað þar sem hvað auðveldast er að fá framgang. Það erum við Íslendingar að horfa upp á, þessa fordæmalausa aukningu í umsóknum.

Ef ég fer hér smávegis yfir tölur þá eru árið 2012 um 100 umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi. Árið 2016 erum við komin yfir 1.000 og árið 2022 erum við komin yfir 4.500 þannig að á tíu árum sjáum við 3.700% fjölgun umsókna. Á árunum 2022–2023 hafa 9.000 manns sótt hér um alþjóðlega vernd. Þetta eru mjög háar tölur. Þetta er sami fjöldi og býr t.d. í Sveitarfélaginu Árborg, 9.000 manns, og í því sveitarfélagi er eitt sjúkrahús, ein heilsugæsla, fjórir skólar og einn fjölbrautaskóli. Þannig að við sjáum hvað þetta eru svakalegar tölur. Við horfum fram á það í raun og veru að til þess að taka á móti þessum hópi þá hefðum við þurft að byggja eitt sjúkrahús, heilsugæslustöð, fjóra skóla og fjölbrautaskóla. Innviðirnir eru komnir að þolmörkum, algjörlega. Við erum fámenn þjóð, fámennasta þjóð í Evrópu, en fáum hins vegar hlutfallslega mjög mikið af umsóknum miðað við aðrar þjóðir og fyrst og fremst er ástæðan sú að regluverkið hér er með öðrum hætti heldur en í nágrannalöndunum og við erum farin að ganga mjög nærri okkar samfélagi, t.d. bara skólunum. Í Reykjanesbæ er t.d. mjög mikið álag þar sem fjölmargir bíða eftir sinni niðurstöðu og fjölmargir umsækjendur um alþjóðlega vernd eru búsettir í úrræðum þar á vegum Vinnumálastofnunar. Bæjarstjórinn þar hefur m.a. sagt að sveitarfélagið sé komið að þolmörkum og geti ekki tekið á móti fleirum.

Við verðum að sjálfsögðu, frú forseti, að hlusta á þessar raddir og átta okkur á stöðunni. Það er verið að gera með þessu frumvarpi og ég fagna því bara að hér er að myndast ákveðinn samhljómur gagnvart því að við þurfum að fara að breyta regluverkinu hér til sama vegar og er í nágrannalöndunum. Markmiðið er að stuðla að betri og skýrari og skilvirkari framkvæmd í útlendingamálum.

Auk þess, frú forseti, af því ég var að tala hér um tölur áðan, þá erum við hlutfallslega að taka á móti mjög mörgum umsækjendum um alþjóðlega vernd. Á árinu 2022 tókum við á móti 580 einstaklingum á hverja 100.000 íbúa og er það án Úkraínu sem er svolítið svona fordæmalaust. Á sama tíma var Danmörk að taka á móti 43, Noregur 75, Svíþjóð 159 og Finnland 84, án Úkraínu, en Ísland 580. Þá sjáum við hvert við erum komin. Það verður að grípa inn í þessa þróun því að hún stefnir hraðbyri í óefni. Spáin fyrir þetta ár er allt að 5.500 umsækjendur. Ef það gengi eftir og sá fjöldi kæmi hér þyrfti að fjölga búsetuúrræðum um 1.500 á einu ári. Og þetta húsnæði er ekki til, höfum það í huga. Auk þess hafa náttúrlega dunið náttúruhamfarir yfir þjóðina sem hafa gert það að verkum að tæplega 4.000 manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín og eru í raun og veru flóttamenn í eigin landi og þurfa á húsnæði að halda. Þetta bætist þá ofan á það. Við sjáum öll að við ráðum ekki við þennan fjölda. Þess vegna er afar mikilvægt að þessar breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu nái fram að ganga og það verði samþykkt á þessu þingi.

Ef ég fer aðeins yfir meginbreytingar í frumvarpinu, sem hæstv. ráðherra fór nú einnig yfir, þá er lagt til að fella niður 2. mgr. 36. gr. Hún kveður á um það að okkur ber skylda til að taka til efnismeðferðar umsóknir hjá þeim sem hafa þegar fengið hæli í öðru landi. Að sjálfsögðu er þetta svona segull, ef má nota það orð, þeir sem hafa fengið hæli í öðru landi geta komið hingað og fengið efnismeðferð á sínu máli, á sama tíma og önnur lönd eins og Norðurlöndin eru ekki með þetta ákvæði og taka þessar umsóknir ekki til efnismeðferðar og vísa þeim frá. Bara það að hafa þetta með sama hætti og í nágrannalöndunum mun að sjálfsögðu fækka umsóknum. Það er alveg klárt. Það eru engin rök fyrir því í sjálfu sér hvers vegna við, þessi litla þjóð, eigum að vera með einhverja sérreglu í þessum málaflokki sem getur gert það að verkum að hingað leita enn þá fleiri heldur en ættu að gera það undir eðlilegum kringumstæðum. Ég fagna því að lagt er til að þetta ákvæði verði tekið úr lögunum.

Ég vil koma inn á líka, frú forseti, fjölskyldusameiningar og breytingar á fjölskyldusameiningu. Í dag er þetta þannig að einstaklingur sem kemur og sækir um hæli og fær hér dvalarleyfi getur samdægurs, um leið og hann fær dvalarleyfið, sótt um fjölskyldusameiningu. Það eru engin takmörk á því. Danir hafa tekið svolítið fast á þessum þætti málsins og við erum að hluta til að fara sömu leið og þeir. Danir gera kröfu um að viðkomandi hafi verið búsettur í landinu í tvö ár, og það er lagt til í þessu frumvarpi að sú leið verði einnig farin. Það er rétt að geta þess, frú forseti, að í Danmörku er auk þess lagt til að sá sem sækir um fjölskyldusameiningu hafi staðist próf í dönsku, hann geti sýnt fram á framfærslu, þ.e. hann geti hafið vinnu og sýnt fram á að hann geti framfleytt þessum fjölskyldumeðlimum sem hann er að sækja um og hann hafi auk þess húsnæði af tiltekinni stærð. Danir hafa þannig sett mjög skýrar reglur hvað þetta varðar. Ég hefði viljað að við færum þessa dönsku leið en við förum hana hér að hluta. Ég persónulega er mikill talsmaður þess að við greiðum götu fólks í því að læra íslensku og vona að við eigum eftir að koma því hér að, kannski í næsta frumvarpi eða þeim breytingum sem verða næstar gerðar á þessum lögum, vegna þess að þessi málaflokkur er síbreytilegur og það þarf reglulega að uppfæra lögin. Við myndum þá setja inn ákvæði um íslensku sem í felst hvatning til að læra tungumálið. Það er mikilvægur þáttur í að aðlagast samfélaginu að kunna íslensku. Ég ætla að vona að það verði framtíðin, að við setjum þessa kröfu um íslenskukunnáttu þegar kemur að fjölskyldusameiningu.

Ég vil aðeins koma inn á það sem formaður Viðreisnar sagði hér, hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Hún var að ræða aðeins um pólaríseringu og skautun í samfélaginu og að hún hefði áhyggjur af því. Vissulega höfum við blessunarlega verið laus við þess háttar í okkar samfélagi og ég vona svo sannarlega að við séum ekki á leiðinni inn í þannig umræðu. En ég vil leyfa mér að trúa því að þetta sé svolítið ofmat hjá hv. þingmanni vegna þess að ég held að það sé bara álagið sem hefur valdið því að fólk er farið að hafa áhyggjur af málaflokknum. Til dæmis er náttúrlega þekkt í skólakerfinu að þegar börn af erlendu bergi brotin koma í skólann og tala kannski ekki tungumálið þá þurfa þau mjög mikla aðstoð og skólakerfið getur í raun og veru ekki tekið endalaust á móti með þeim hætti. Þetta veldur því kannski að önnur börn, þau sem tala tungumálið, fá ekki eins mikla aðstoð í skólum og þyrfti. Ég hef rætt við kennara sem hafa einmitt lagt áherslu á það að við verðum að bregðast við þessum vanda sem fylgir því að hingað kemur svona mikill fjöldi.

Auk þess kom hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir inn á mikilvægi þess að fólk, og þá var hún í sömu andrá að ræða umsóknir frá Venesúela eða þá sem hafa sótt um vernd og eru frá Venesúela, væri að sinna mikilvægum störfum eins og t.d. á hjúkrunarheimilum. Ég vil bara að segja í því samhengi að við verðum að greina algjörlega þar á milli, hér erum við að tala um verndarkerfið. Við erum að tala um verndarkerfi sem felst í því að þú sækir um vernd í þessu landi vegna þess að þú, samkvæmt lögunum og alþjóðasáttmála Sameinuðu þjóðanna þarf að sýna fram á það, ert jafnvel í lífshættu eða ofsóttur í heimalandi þínu. Þú getur ekki farið þessa leið til þess að sækja um vinnu. Það eru aðrar leiðir til þess, þ.e. að nota dvalarleyfiskerfið og sækja um vinnu með þeim hætti. Það er mjög mikilvægt að halda því til haga að þetta verndarkerfi er neyðarkerfi og er ekki hannað til þess að fólk sé að sækja um vinnu eða einfaldlega að leita sér að betra lífi, betri lífsgæðum þótt vissulega beri maður virðingu fyrir því. En þá er þetta ekki leiðin, hún er einungis fyrir þá sem eru ofsóttir í sínu heimalandi eða eru í lífshættu. Mér finnst mikilvægt að þetta komi hér fram,

Það er engin tilviljun, frú forseti, að t.d. í Svíþjóð og í Evrópu hefur umsóknafjöldi um alþjóðlega vernd aukist. Við verðum að senda ákveðin skilaboð. Það er flóttamannavandi í mörgum löndum. Við þekkjum það í Bretlandi, Grikklandi, Ítalíu, Spáni. En við verðum hins vegar að hafa regluverkið með þeim hætti að við skerum okkur ekki úr. Það eru mistökin sem hafa verið gerð hér og sérstaklega t.d. varðandi Venesúela, það hefur verið aðeins rætt hér, ég er algerlega þeirrar skoðunar að það hafi verið gerð mistök í kerfinu varðandi þann mikla fjölda sem kom hingað frá Venesúela og þau skrifast fyrst og fremst á kærunefnd útlendingamála sem er sjálfstæð í störfum sínum. Hvorki stjórnmálamenn, ráðherrar, Alþingi eða ríkisstjórn geta sagt nefndinni fyrir verkum. Það er nefndin sem tekur þessa ákvörðun. Hún hefur hins vegar núna fallið frá henni með úrskurði frá því í haust og hafinn er brottflutningur umsækjenda um alþjóðlega vernd frá Venesúela héðan frá Íslandi. Auðvitað veldur þetta fólki vandræðum. Það hafði væntingar um að koma hingað og svo falla þær væntingar niður þegar kærunefndin breytir sinni afstöðu. En þess vegna segi ég að það voru mistök að fara þessa leið í upphafi. Ég hef rætt við lögmenn sem starfa í þessum geira, starfa fyrir hælisleitendur eða þá sem eru að sækja um alþjóðlega vernd, sem viðurkenna það að málefni Venesúela hafi verið mistök. (Forseti hringir.) Við verðum að læra af þeim mistökum og það er svo sannarlega verið að gera hér og kærunefndin lærði af þessum mistökum sem betur fer. (Forseti hringir.) En að þessu sögðu þá hlakka ég til þessarar umræðu og vona að frumvarpið fái góða og mikilvæga umræðu vegna þess að það er afar nauðsynlegt.