154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[18:57]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa listilegu leið til þess að sneiða fram hjá spurningunni minni sem var hvort hann teldi að þetta frumvarp hefði einhver áhrif á þessa tvo langstærstu hópa umsækjenda hér á landi. Sá hópur umsækjenda sem er ekki frá Úkraínu og ekki frá Venesúela — báðir hóparnir eiga það sammerkt að lenda í rauninni í efnismeðferð hér á landi og eru almennt ekki búnir að fá vernd annars staðar þegar þeir koma hingað til lands — sá hópur sem ekki er frá Úkraínu eða frá Venesúela er algerlega af þeirri stærðargráðu sem ég held að enginn geti haldið fram að við ráðum ekki við að taka á móti. Fjöldinn sem stanslaust er vísað til kemur fyrst og fremst frá Úkraínu og Venesúela. Talað er um að innviðirnir séu að hrynja, þótt þeir séu sannarlega ekki að hrynja undan þessu fólki heldur undan óstjórn þessarar ríkisstjórnar, en það er önnur saga. Telur hv. þingmaður að eitthvað í þessu frumvarpi muni hafa áhrif á fjölda umsókna á Íslandi frá Úkraínu og Venesúela?