154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[18:59]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Já, ég tel að þetta frumvarp sé náttúrlega bara með mjög skýr skilaboð. Þetta eru mjög skýr skilaboð um að hér sé verið að færa regluverkið til sama horfs og í öðrum löndum, að mestu. Þar eru mjög mikilvægir þættir eins og t.d. 2. mgr. 36. gr., sem ég hef farið hér yfir, og síðan þegar kemur að fjölskyldusameiningum þá eru þetta klárlega skilaboð og þau hafa að sjálfsögðu áhrif. Auðvitað hefur haft áhrif þessi nýi úrskurður kærunefndar sem kom á haustmánuðum um að fallið yrði frá viðbótarvernd til handa umsækjendum um alþjóðlega vernd frá Venesúela. Við sjáum að umsóknum hefur fækkað og menn sjá það að hér eru ekki opnar dyr eins og voru. Þá hefur það áhrif. Og það hefur áhrif þegar frumvarpið verður samþykkt að við verðum komin nær þessu regluverki eins og er á hinum Norðurlöndunum. Það sjá það allir að að umsóknirnar frá Venesúela um alþjóðlega vernd voru margfalt fleiri hér en á hinum Norðurlöndunum; í Noregi sem dæmi, Svíþjóð vísaði þessu öllu bara frá og Noregur veitti ekki viðbótarvernd. Þannig að svarið er já, hv. þingmaður. Þegar kemur að umsækjendum um alþjóðlega vernd frá Úkraínu, sem vissulega er stór hópur, þá hefur orðið fækkun og aðstæður í Úkraínu og Venesúela eru algerlega ólíkar. Við þekkjum það öll. Þjóðin hefur sammælst um það að taka vel á móti Úkraínufólki og við munum áfram gera það. En það er hins vegar fækkun í þessum umsóknum og þessir einstaklingar munu, um leið og stríðið búið, eins og ég þekki Úkraínumenn, ágætlega, allir eða mjög margir fara til síns heima að stríðinu loknu.