154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[19:16]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvörin. Ég reyndi að vanda mig við að tala hægt og rólega hér áðan til að hraða nú málinu ekki of mikið, af tillitssemi við aðra þingmenn hér í salnum, en ég skal reyna að fara aðeins yfir þetta aftur til skýrleika. Ég tók það sérstaklega fram í minni ræðu og það kemur fram í okkar fyrirvara að við sjáum ekki alveg svona í fljótu bragði hvernig styttri dvalarleyfatími eigi raunverulega að auka skilvirkni við afgreiðslu mála. (Gripið fram í.) Ég nefndi sérstaklega að það kynni að hafa þveröfug áhrif og auka álag á stjórnsýsluna. Yfir þetta fór ég og ég hygg að ég og hv. þingmaður höfum tekið eftir því sama í frumvarpinu ef það er það sem hv. þingmaður er að ýja að.

Hvað í þessu frumvarpi stuðlar að inngildingu? Sá kafli sem laut að inngildingu í mínu máli var meira svona til að benda á það sem koma skal í samhengi við hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra, ég tel það óaðskiljanlegan þátt í umræðunni um heildarsýn í útlendingamálum. Ég hygg nú raunar miðað við hvað umræðan um það hefur vaxið á undanförnum misserum að það séu fleiri sammála mér í því. Gott og vel, en við erum ekki að fást við það endilega í þessu frumvarpi.

Samhengið við Norðurlönd held ég að hafi verið þriðja spurningin. Ég tók sérstaklega fram hér áðan að eitt af Norðurlöndum er nú aldeilis ekki það sama og annað. Ég var einmitt að spjalla við annan hv. þingmann í hliðarsal undir umræðum hér áðan og mín tilfinning er sú, og ég ætla að leyfa mér að segja tilfinning, að Norðmönnum virðist ganga betur en mörgum öðrum á Norðurlöndunum í þessum málum. Ég tel mjög spennandi að horfa til þeirra. Af því að síðasta spurningin laut að því hversu langt eigi að ganga svo ná megi botninum þá tel ég okkur ekki vera, ekki með þessu frumvarpi og heldur ekki bara í vinnunni eins og hún hefur staðið fyrir dyrum hérlendis, í einhverjum hraðbyri í átt að botninum.