154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[19:29]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég er nú búinn að útskýra það af hverju það kemur svo seint. Ég bara komst ekki fyrr að og bið ykkur afsökunar á því, kæru félagar hér í þingsal. En svona er það bara, þegar fólk keppist að við að komast á mælendaskrá þá verður maður bara að bíða rólegur eftir því að komast að og ekkert mál með það. Ég er ekki einn þeirra stjórnarþingmanna sem stend hér í 1. umræðu og kref önnur um afstöðu og stuðning til mála sem eru ekki búin í þinglegri meðferð og ætla ekki að leggja það í vana minn að gera það. Að sama skapi ætla ég heldur ekki að standa hér og segja að fyrirvarinn þýði að þingmenn VG ætli ekki að styðja þetta mál þegar það er búið í sínum verkum þannig að ég held að það þurfi ekkert að stökkva upp á nef sér í þessari umræðu hér. En ég taldi það rétt og heiðarlegast að koma því á framfæri hver fyrirvari okkar er. En ég skal reyna að vera fljótari að berja í borðið næst til að komast að fyrr í röðinni.