154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[19:49]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og ég vona, eins og ég sagði hér áðan, að við munum ná saman um það í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Ég og hv. þingmaður höfum átt ýmis samtöl, bæði hér í þessum ræðustóli, inni í nefndinni og líka í fjölmiðlum, og oftar en ekki hefur okkur orðið tíðrætt um norræna velferðarkerfið og hvernig við viljum bera okkur saman við hin Norðurlöndin. Ég þykist vita að hv. þingmaður hefur mikinn áhuga á því að Ísland sé almennt vel samkeppnishæft við hin Norðurlöndin þegar kemur að velferðarkerfinu okkar og þá langar mig að spyrja: Er hv. þingmaður jafnframt á þeirri skoðun að það sé eðlilegt að lagaramminn okkar varðandi fólk sem sækist eftir alþjóðlegri vernd og framkvæmd slíkra laga sé sambærilegt við það sem þekkist í hinum ágætu velferðarsamfélögunum á Norðurlöndunum?