154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[19:50]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég lifi fyrir skandinavíska fyrirmyndarríkið. Ég er ákaflega vilhöll undir þær leiðir og aðferðir sem farnar eru að mörgu leyti til að ná settum markmiðum á Norðurlöndunum, ef við ætlum að tala um leiðir og markmið hér kvöld. En það þýðir ekki að það sé allt betra þar. Við erum auðvitað á þeim stað að vera í aðstöðu til að geta lært af því sem miður fer erlendis. Við erum stundum dálítið á eftir. Við getum tekið jákvæða reynslu úr einstökum málaflokkum og heimfært hana yfir á íslenskt samfélag og við getum stundum verið leiðandi. En í þessu tilliti þá skiptir líka máli fyrir okkur að staldra við og skoða hvað hefur hreinlega gefist illa. Ég er að sjálfsögðu og allir eru að sjálfsögðu opnir fyrir því að skoða hvað hefur gefist vel. Að afgreiða hins vegar einstakar breytingar á íslensku regluverki með því að segja að þær eigi sér einhverja hliðstæðu í norrænu samhengi er nokkuð ódýrt. Við getum tekið undir eitthvert „sentiment“ um að það sé vont að skera sig að miklu leyti úr, en athugum að þetta frumvarp leggur hreinlega líka til leiðir þar sem við getum skorið okkur að miklu leyti úr, t.d. eins og í fjölskyldusameiningunum. Þannig að nei, ég ætla ekkert að svara því á einu bretti að við eigum að líkjast Norðurlöndunum, punktur. Það er samanburður sem við verðum bara að kveðja í þessari umræðu. Ef við ætlum að ræða fram og til baka hvort það réttlæti samþykkt þessa frumvarps eða einhvers annars að það beri með sér einhverjar fyrirmyndir í norrænum samanburði þá komumst við ekkert áfram. Ég get alveg lofað því. Við getum rætt um það á öðrum vettvangi, kannski ekki í umræðu í útlendingamálum, hvað norræna velferðarkerfið snýst um. Það snýst ekki um það að búa hér til háar girðingar (Forseti hringir.) fyrir útlendinga sem leita þar skjóls. (Forseti hringir.) Það snýst um velferðarkerfið, tilfærslukerfi og félagslegan jöfnuð.