154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[19:52]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðunni hér í dag og þetta er auðvitað málaflokkur sem vekur með okkur, bæði hér á þingi og úti í samfélaginu, svolítið háar og miklar tilfinningar. Ég ætla bara segja í upphafi að mér finnst að þegar við erum að tala um útlendingamálin og innflytjendamálin þá sé þetta tvennt. Þetta er annars vegar samfélagsgerðin og regluverkið sem við höfum. Hitt, ekki síður mikilvægt, er hvernig við högum orðum okkar, hvernig við tölum um fólk og hvort við sýnum hvert öðru og því fólki sem hingað leitar eða hér vill búa tilhlýðilega virðingu.

Við urðum öll svolítið slegin í dag, held ég, við upphaf umræðunnar um þetta mál. Ég þarf ekkert að fara í neinum smáatriðum yfir það sem við urðum vitni að hér uppi á þingpöllunum. Það sem mig langaði kannski að nefna í þessu samhengi er að eðlilega hafa fjölmiðlar flutt fréttir af þessu máli og það birtist okkur mjög glögglega hér í dag að neyð og örvænting þess fólks sem hingað leitar vegna þess að það telur að hér sé skjól að fá er oft mjög mikil og það ætti ekki að vera erfitt fyrir okkur að reyna a.m.k. að skilja örvæntingu og ótta þess fólks sem hingað leitar. Fjölmiðlar birta fréttir af þessu í dag og umræðuhalinn á samfélagsmiðlunum er svona:

Burt með þetta djöfuls pakk í síðasta lagi sem allra fyrst. Á nú að fá vorkunn hjá þjóðinni, segir annar. Þetta lið er strax byrjað að sýna sitt rétta andlit. Úr landi með þetta lið í hvelli. Frímerki á rassgatið, aðra leið án fæðis, þvílík vanvirðing við þingið. Sami maður og var í tjaldbúðum, boðar ekki gott. Af hverju fær þetta fólk að sitja á þingpöllum? Burtu með þetta lið. Alger vanvirðing. Ekki bætir þetta álit mitt. Klikkað. Burt með þessa ófriðarseggi. Flugmiða út fyrir landhelgina.

Þetta eru viðbrögðin við því sem gerðist hér í þingsal í dag. Þess vegna segi ég að þegar við erum að ræða þessa málaflokka, hvort sem við erum að tala um innflytjendur í heild sinni, hælisleitendur eða regluverkið sem við erum að reyna að koma okkur upp þá skiptir alveg gríðarlega miklu máli hvernig við högum orðum okkar í umræðunni sjálfri, vegna þess að ef við tölum ekki gætilega þá nákvæmlega erum við að búa til frítt spil fyrir alla þá sem tala með þeim hætti sem ég var að rekja hér undir þessari frétt af manninum sem ég held að allur þingheimur hafi fundið mikið til með hér fyrr í dag. Þannig að þetta er tvennt: Regluverkið er eitt, síðan er umræðan og það hvort við vöndum okkur annað og það er ekki síður mikilvægt.

Harkan hefur verið að aukast mikið í umræðunni um útlendinga. Það er markvisst búið að vera að koma því að hjá fólki að hér sé álag á innviði, heilbrigðiskerfið, menntastofnanir, á alla mögulega innviði og einhvern veginn er það svo að umræðan færist þá alltaf yfir á hælisleitendur. Það eru um 70.000 útlendingar á Íslandi þessa stundina. 90% þeirra eru ekki hælisleitendur. Nærri 80% hælisleitenda koma frá Venesúela og Úkraínu. Það er enginn að fetta fingur út í það að hingað komi fólk frá Úkraínu. Það er verið að gera sérstakar ráðstafanir til að bregðast við þessu með fólkið frá Venesúela, að mér skilst, og þegar við erum búin að taka þennan stabba af fólki frá þá auðvitað erum við með tiltölulega fámennan hóp eftir og mér finnst rangt að öllu leyti að láta umræðuna vera eins og sá fámenni hópur sé úrslitaatriði um það hvort hér þoli innviðir álag eða ekki. Mér finnst rangt að tala með þeim hætti um útlendinga, ekki síst hælisleitendur.

Hitt er síðan annað að ef við erum komin í þá stöðu hér eftir svona langan valdatíma Sjálfstæðisflokksins í dómsmálaráðuneytinu að arfleifðin er, og vitna ég bara í orð þeirra, stjórnleysi og óstjórn í málaflokknum þá auðvitað þurfum við að grípa í taumana. Við eigum auðvitað bara að fagna því þegar flokkar eru tilbúnir til að vera svona gagnrýnir á eigin valdatíma í embætti. Jafnframt ef menn eru að bjóða einhverja útrétta sáttarhönd í því skyni að koma hér málum þannig að við séum ekki að eyða 15–20 milljörðum í málaflokk þegar við gætum verið að eyða mögulega minni fjármunum og nota þá frekar peningana sem losna í að taka betur á móti þeim sem eiga rétt á að vera þá er minn flokkur auðvitað til í það samtal, eins og kom ágætlega fram hjá formanni Viðreisnar í umræðunni fyrr í dag.

Mig langar aðeins að halda því hér til haga, af því að það er stundum verið að tala um þessa séríslensku segla, hvað er það sem laðar fólk til Íslands? Þetta hefur auðvitað verið kannað í evrópsku samhengi, hvað það er sem ræður því hvert fólk fer. Í sumum tilfellum er það atvinnustig í löndunum sem getur haft mikið um það að segja. Í einhverjum tilfellum getur það sem ræður því verið hverja viðkomandi þekkir fyrir í landinu sem viðkomandi endar hjá. Þetta geta líka verið alls konar tilviljunarkenndir þættir en þessar kannanir hafa verið að sýna það að hælisleitendur vita almennt ekkert í smáatriðum neitt sérstaklega mikið um regluverk á milli landa. Við erum að tala um regluverkið á Norðurlöndunum en þó að þau séu að ákveðnu leyti farin að líkjast hvert öðru meira en var áður eru þau enn þá mjög ólík innbyrðis í því hvernig þau stilla upp sínu regluverki. Hælisleitendur eru ekkert með þetta á hraðbergi að gúgla þetta í smáatriðum í símanum sínum. Það er ekki þannig. Kannanirnar sýna það og það er líka hægt að sjá það bara á statistík frá öðrum löndum. Ef við erum að tala um séríslensku seglana, séríslensku reglurnar, hvernig skýrum við þá það að þegar við kíkjum til Spánar kemur þangað mest fólk frá Kólumbíu, Perú og Venesúela? Til Frakklands leitar fólk mikið frá Srí Lanka, Sýrlandi og Afganistan. Sýrlendingar og Afganar eru þar hlutfallslega mun fleiri heldur en leita hingað en þeir eru auðvitað hátt hlutfall flóttamanna almennt eins og við vitum. Ef við förum til Belgíu þá erum við komin með lönd eins og Írak og Búrúndí þaðan sem fólk leitar. Við getum farið til Portúgals. Þar er fólk frá Angóla, Gambíu og Kongó mjög fjölmennur hópur hælisleitenda. Í Þýskalandi sjáum við marga Tyrki, Sýrlendinga og Afgana. Þetta er einfaldlega ekki þannig að það sé hægt að tala um einhverja séríslenska segla því þá eru auðvitað einhverjir sérportúgalskir seglar líka, eins og ég var að lýsa, eða sérþýskir eða sérbelgískir eða sérspænskir.

Hitt er síðan annað að við verðum auðvitað að taka góða umræðu um þetta og ég ætla ekkert að draga neina fjöður yfir það að sá sem hér stendur þarf auðvitað líka að gæta að því að haga orðum ekki með þeim hætti að við séum að auka pólaríseringu í samfélaginu vegna þess að ég trúi því svo heitt og innilega að okkur farnist best gagnvart okkur sjálfum og því fólki sem hingað leitar með því að ná einhverri samstöðu um það hvernig við viljum haga þessum málum til lengri tíma. Annars erum við að taka upp útlendingalög á hverju einasta þingi, stagbæta hér, breyta einhverju þar og það vantar þá einhverja heildarsýn eða -stefnu. Við höfum tekið það skýrt fram að við erum til í samtal um það hvernig við tökum betur á móti hælisleitendum og ekki síður þeim ótrúlega fjölda sem hingað kemur að vinna frá Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta eru tugþúsundir sem hingað leita á hverju einasta ári. Þetta er fólk sem vinnur á hjúkrunarheimilum. Þetta er fólk sem vinnur í skólum. Þetta er fólk sem vinnur í leikskólunum. Þetta er fólk sem vinnur úti um allt í velferðarþjónustunni. Þetta fólk heldur uppi heilu atvinnugreinunum. Við getum nefnt ferðaþjónustu og byggingariðnaðinn sem síðan þjónustar ferðaþjónustuna. Það er bara ofur einfaldlega þannig að allar kannanir, bæði á lýðfræði okkar og framtíðarþörfum okkar fyrir velferð, benda til þess að lífræn fjölgun okkar Íslendinga sé ekki nægjanlega mikil til þess að standa undir framtíðarvelferð. Auðvitað er það þannig að hælisleitendakerfið á ekki að vera eitthvert sérstakt tæki í því en það hlýtur þó a.m.k. að vera eitt af því sem við skoðum þegar við erum að velta því fyrir okkur hvar útlendingar geta gert gagn í okkar samfélagi. Það er áhugavert að sjá það sem hefur komið fram í vinnu þessa hóps sem forsætisráðherra setti á laggirnar eftir að formaður Viðreisnar sendi hæstv. forsætisráðherra bréf um að reyna að efna til samtals um þetta, að meðal þeirra staðreynda sem hafa verið lagðar fram fyrir þann hóp er að atvinnuþátttaka hælisleitenda er ekki minni en Íslendinga, bara svo dæmi sé tekið. Ég held að við ættum frekar að reyna að opna reglurnar okkar þannig að þeir sem hingað koma eigi einhvern möguleika á því að framfleyta sér á meðan þeir bíða eftir svari. Við eigum ekki sjálf endilega að ýta velferðarþjónustu sjálfkrafa á hóp sem mögulega er tilbúinn til að sjá fyrir sér sjálfur.

Það sem hefur verið nefnt í þessu máli hér sem svona aðalatriði er sjálfsagt og gott að fara yfir. Mig langar þó bara, rétt eins og vinir mínir í VG, að setja persónulega ákveðna fyrirvara við. Ég ætla ekki að samþykkja þetta hér bara strax hrátt í 1. umræðu, til að mynda þetta sem snýr að breytingunni hjá kærunefnd útlendingamála. Það er sjálfsagt mál að fara yfir það hvernig best er að skipa þessa kærunefnd. Hún verður þá skipuð þremur einstaklingum í fullu starfi frekar en að gamla fyrirkomulagið verði viðhaft. Ég hefði hins vegar mjög gjarnan viljað sjá í því nýja fyrirkomulagi að einn þeirra sem sætu þá í kærunefndinni hefði einhverja sérþekkingu eða væri jafnvel skipaður af mannréttinda- og mannúðarsamtökum. Ég held að það myndi örugglega ljá kærunefndinni aðeins meiri og dýpri trúverðugleika heldur en ef allir nefndarmenn eru skipaðir beint af ráðherra. Talandi um ráðherra þá langar mig að fagna því hversu vel núverandi dómsmálaráðherra og félagsmálaráðherra hafa tekið í þessa vinnu sem við í Viðreisn stungum upp á sínum tíma og ég er þeirrar skoðunar að það samtal sem þar á sér stað geti mögulega verið svolítið góður vegvísir inn í framtíðina.

Varðandi það sem snýr að fjölskyldusameiningunum þá ætla ég aftur líka að velta því upp, af því að þarna er miðað við tvö ár: Af hverju erum við að miða við tvö ár? Við horfum sérstaklega til Danmerkur. Ég held að það sé ekkert leyndarmál að þegar við horfum á Norðurlöndin þá hafa Danir viljað fara kannski hvað hörðustu leiðina gagnvart hælisleitendum af Norðurlöndunum öllum. Gott og vel ef menn vilja kíkja eitthvað þangað. Ég held að við höfum nú upplifað það mjög mörg í allsherjar- og menntamálanefnd þegar við fórum til Danmerkur og Noregs að okkur fyndist að Norðmenn væru með kærleiksríkara hjarta í sínu kerfi en Danirnir. En gott og vel, þarna er miðað við tvö ár og Danmörku. Þurfa þetta að vera tvö ár? Væri eitt ár nóg? Þetta er eitthvað sem allsherjar- og menntamálanefnd getur auðvitað tekið til skoðunar. Ég ætla ekki að slá þetta út af borðinu strax en það væri vissulega gott að fá einhvern gleggri samanburð við öll Norðurlöndin með þetta.

Síðan er ég svolítið sammála þeirri gagnrýni sem hér hefur komið fram á það að stytta gildistíma dvalarleyfa eins og lagt er upp með, hvort það sé að auka skilvirkni, vegna þess að ég myndi halda að það þýddi þá bara fleiri snertifleti einstaklinganna við útlendingakerfið okkar og þar af leiðandi meira álag. En sjálfsagt er einhver rökstuðningur á bak við þetta sem kemur þá fram fyrir nefndinni, sem við getum þá farið betur yfir.

Það er auðvitað eitt og annað sem við þurfum þá að skoða í þessari nefnd en ég ætla samt að fá að segja, af því að menn eru að tala um breyttan tón hérna frá því síðast þegar við vorum að ræða um útlendingamálin, að það alvarlegasta í þeim breytingum þá var auðvitað þjónustuskerðingin sem boðuð var og kom til framkvæmda. Við sáum það raungerast strax eftir að það frumvarp var orðið að lögum að skilningur félagsmálaráðherra og þáverandi dómsmálaráðherra á afleiðingunum var engan veginn sá sami. Það hafði ekki átt sér stað neitt samtal við sveitarfélögin um það hvort þau ættu að taka við, hvort lög um sveitarfélög ættu að grípa þetta fólk eða ekki, þannig að það ríkti nú eiginlega hálfgert ástand hér á götum borgarinnar. Við vorum að horfa á það að allt í einu var búið að svipta fórnarlömb mansals og fólk í mjög viðkvæmri stöðu þjónustu og sveitarfélögin höfðu ekki hugmynd um af hverju það var verið að benda á þau og ráðherrar í ríkisstjórninni voru ekki sammála um áhrifin af þeim breytingum. Ég hef enga trú á því að það sem er verið að leggja til hér hafi svo drastískar afleiðingar í för með sér. En ég fagna því að það er a.m.k. núna í þessari vinnu verið að reyna að efna til aðeins meira samtals á milli flokkanna á þingi um það hvernig best sé að haga þessum málum til framtíðar, því það er ekki gott af því að undir er fólk, eins og við sáum hérna í dag, í gríðarlega viðkvæmri stöðu sem á ekki að vera andlag ótrúlegra átaka og deilna í samfélaginu ár eftir ár. Við hljótum, allir flokkar, að geta sameinast einhvers staðar á einhverjum stað. Það þýðir kannski að allir þurfi að gefa pínulítið eftir af sínum ýtrustu kröfum en við hljótum að geta fundið einhverja leið til þess að taka mannúðlega og vel — virðandi öll mannréttindi hjá fólki sem kemur hingað í mjög viðkvæmri stöðu og auðvitað unnið út frá því að það eru ákveðin mannréttindi að fólkið fái endanlegt svar sem fyrst, þannig að það sé nú sagt líka. Það að flýta málsmeðferðinni er bara sjálfstætt og gott markmið. Það að ætla sér að hafa áhrif á það hversu margir koma til að láta reyna á það, það er erfiðara hins vegar að stýra því, því að við berum auðvitað einhverjar skyldur gagnvart öllu því fólki, rétt eins og önnur Evrópuríki.

(Forseti (AIJ): Forseti minnir á að þegar vitnað er í orð annarra þarf að gera það með leyfi forseta.)