154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[20:08]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016. Þetta frumvarp snýr sérstaklega að ákvæðum um alþjóðlega vernd, mikilvægt mál sem er liður í endurskoðun á lögum um útlendinga sem að mínu áliti þarf að vera viðvarandi verkefni stjórnvalda í síbreytilegum heimi.

Málið er líka mikilvægur liður í vinnu samkvæmt heildarsýn í útlendingamálum sem ríkisstjórnin hefur sammælst um og kynnt var þann 20. febrúar síðastliðinn. Í þeirri heildarsýn endurspeglast stefna okkar í Framsókn, stefna um að löggjöf taki mið af alþjóðasamningum sem Íslendingar eiga aðild að, samningum og skuldbindingum, og sé á hverjum tíma í takt við löggjöf nágrannalandanna. Viðmið við alla ákvarðanatöku um laga- og reglugerðarbreytingar skal taka mið af mannúð og skilvirkni í samræmi við markmið útlendingalaga og ævinlega þarf að finna þar leiðir sem eru raunhæfar miðað við okkar aðstæður hverju sinni.

Við í Framsókn leggjum líka mikla áherslu á að byggja á traustum og réttum upplýsingum um stöðuna hér á landi og í samanburði milli landa. Við þurfum samstarf og samvinnu við nágrannalöndin um lagaumhverfið en líka um samræmdar aðgerðir gagnvart þeim áskorunum sem við mætum hverju sinni alþjóðlega.

Sú sem hér stendur starfaði í þverpólitískri nefnd um málefni útlendinga á árunum 2014–2016 sem undirbjó lögin sem samþykkt voru árið 2016 og tóku gildi í upphafi árs 2017. Heildarendurskoðuninni var ætlað að byggja grunn til að mögulegt væri að halda áfram að þróa útlendingalöggjöfina í takt við breytingar á löggjöfinni í kringum okkur. Okkur hefur því miður ekki auðnast það á síðustu árum heldur allt of oft fest okkur í umræðunni um breytingar á einstökum ákvæðum í stað þess að horfa á heildarmyndina. Það er því gríðarlega mikilvægt skref að við höfum nú sammælst um heildarsýn. Ég heyri ekki annað á umræðunni hér í dag en að það sé vilji til þess að ræða málin á þeim nótum og vinna þetta frumvarp inni í þinginu í því ljósi. En ég vil líka leggja áherslu á það hér að virkt samtal um málefni innflytjenda og flóttamanna við okkar nágrannalönd og við þær Evrópuþjóðir sem vinna samkvæmt sömu samningum um landamæri, sem tilheyra Schengen-svæðinu, er mikilvægt á hverjum tíma. Ég held að okkur sé það t.d. öllum ljóst að við hefðum aldrei getað tekið ákvörðun um að framlengja sameiginlega vernd vegna fjöldaflótta í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu án samráðs við aðrar Evrópuþjóðir og í rauninni aldrei getað hafið þá vegferð ein og sér.

Þá vil ég líka leggja áherslu á það að hvers konar þróunarsamvinna og vinna með Sameinuðu þjóðunum að jöfnum lífsskilyrðum á heimsvísu er lykillinn að því að fækka fólki á flótta og það er gríðarlega mikilvæg vinna á hverjum tíma. Ófriður, ofsóknir, náttúruhamfarir og hnignun landgæða eru helstu ástæður þess að fólk flýr heimkynni sín og í flestum tilfellum fer flóttafólk að heiman þvert á það sem það vildi helst gera. Við þurfum því að nota öll tækifæri til að beita okkur fyrir friði eða styðja stjórnvöld þar sem náttúruhamfarir verða og halda áfram að styðja við það samstarf Sameinuðu þjóðanna sem vinnur að jöfnuði á heimsvísu, svo sem þá stofnun sem við höfum unnið mikið með um endurheimt landgæða.

En aftur að þessu máli. Það skiptir máli að afgreiðsla umsókna þeirra sem hér sækja um alþjóðlega vernd sé vönduð en jafnframt hröð, eða skilvirk eins og við segjum, bæði vegna þeirra sem ekki koma til með að fá hér vernd og hinna sem fá stöðu flóttamanns hér á landi.

Ég ætla ekki að staldra sérstaklega við þau sex atriði sem lagðar eru til breytingar á með frumvarpinu enda búið að ræða þau töluvert hér. Ég læt það bíða vinnunnar í allsherjar- og menntamálanefnd en í minni vinnu við yfirferð málsins þar mun ég leggja áherslu á að rýna tillögurnar í því ljósi hvort þær samræmist og nái fram þeim markmiðum sem sett eru fram í heildarsýninni sem kynnt var 20. febrúar og hvort og með hvaða hætti breytingarnar samræmast því sem önnur Norðurlönd eru að gera og kalla eftir upplýsingum til að undirbyggja það. Jafnframt finnst mér mikilvægt að nefndin kynni samspil útlendingalaga við eftirlit á landamærum því að það er eitt af því sem virðist ríkja töluverð upplýsingaóreiða um hér á landi og mikilvægt að nefndin fái skýrar upplýsingar um það hvort raunverulega séu einhver tækifæri til að auka skilvirkni með breytingum á landamæravörslu, enda má það vera flestum ljóst að fjölgun umsókna um alþjóðlega vernd hefur í gegnum síðustu ár tengst fjölgun ferða til landsins og tækifærum til að komast hingað frá mismunandi áfangastöðum.

Annað sem hefur verið nefnt hér í umræðunni í dag og mér finnst mikilvægt að við í allsherjar- og menntamálanefnd fylgjum eftir er hvort það séu tækifæri til styttingar málsmeðferðar hjá Útlendingastofnun til viðbótar því sem gert er ráð fyrir að stytta málsmeðferðartímann fyrir kærunefndinni samkvæmt frumvarpinu og þá mun ég fylgja eftir og kalla eftir upplýsingum um yfirstandandi og fyrirhugað samtal og samráð við nágrannalöndin og í alþjóðlegu samstarfi til framtíðar.

Að lokum: Samhengi þessa frumvarps við inngildingu er auðvitað mjög mikilvægt því að inngilding þeirra sem hingað flytja skiptir okkur öll máli og við þá vinnu verðum við að virða ólík sjónarmið í samfélaginu, vinna úr þeim. Það er það sem við sem sitjum á Alþingi þurfum að gera jafnframt því sem stjórnvöld þurfa að taka mið af ólíkum sjónarmiðum. En öll þurfum við að vera lausnamiðuð og með raunsæi að leiðarljósi og vinna án öfgaumræðu. Það er viðvarandi verkefni að móta reglur sem hér gilda um komu útlendinga. Það þarf skýra forystu stjórnvalda um inngildingu innflytjenda, forystu sem getur stutt ólíkar byggðir landsins í þeim verkefnum sem þar fara fram, svo sem í heilbrigðiskerfinu, í skólum, á vinnustöðum, í íþróttastarfi og öðru félagsstarfi.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra hér en legg áherslu á það að við í allsherjar- og menntamálanefnd leggjum okkur fram um að skýra þetta mál enn frekar í okkar vinnu.