154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[20:41]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir sína ágætu ræðu. Fann mig þó knúinn til að koma hingað upp til að árétta eitt sem ég fór einmitt yfir í minni ræðu og ég biðst bara forláts, virðulegur forseti og hv. þingmaður, ef ég hef misskilið það. Kannski var hv. þingmaður ekki í salnum þegar ég flutti ræðuna en þar dró ég akkúrat upp þetta atriði sem varðar tillögu til þingsályktunar um stefnu í málefnum innflytjenda og flóttafólks sem hv. þingmaður benti réttilega á að hafi verið á þingmálaskrá vorsins en sé ekki þar en sé hins vegar boðuð næsta þingvetur. Ástæðuna fyrir því má m.a. sjá í mjög góðri frétt, leyfi ég mér að segja, Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, frá því í gærkvöldi, af því að það er í gangi heilmikil vinna þessu tengt. Ef hv. þingmenn hafa ekki séð þessa frétt var hún, held ég, ágætisinnsýn inn í þá vinnu sem er í gangi til þess einmitt að undirbyggja þetta og hæstv. félags- og vinnumarkaðráðherra hefur getið þess að sökum þeirrar umfangsmiklu vinnu og þess mikla samtals sem hann hefur boðað og efnt til vítt og breitt um landið þá náist þetta einfaldlega ekki á þessu þingi. En samhliða er líka unnið að frumvarpi um móttöku flóttafólks og inngildingu innflytjenda sem hæstv. ráðherra hyggst leggja fyrir á næsta þingi sömuleiðis. Og af því að ég hjó eftir því að hv. þingmaður var að ræða hér til hvaða lands á Norðurlöndunum væri vert að horfa til þá vil ég bara segja að ég tek undir það sem fram hefur komið að þar er vert að horfa til Noregs sérstaklega og þeirrar vinnu og þess árangurs sem þau virðast hafa náð í þessum málum og ég tel mig vita að það er m.a. verið að gera það þegar kemur að þessum málum hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra.