154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[21:09]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Hér heldur hv. þingmaður áfram, viðheldur tuggu sem er fráleit í umræðunni og er röng, sem er sú að flóttafólk sé eitthvað öðruvísi en annað fólk. Flóttafólk er fólk sem vill geta komið undir sig fótunum, vill fá að lifa sjálfstæðu lífi, fer út á vinnumarkaðinn, greiðir skatta eins og aðrir borgarar. Það að tala eins og það þurfi að vernda velferðarkerfið fyrir flóttafólki — hv. þingmaður talar um að hún sé reiðubúin að bjóða velkomið fólk sem vill koma hingað og vinna og búa sér betra líf. (Gripið fram í.) Hvers vegna tekur hún þá ekki á móti flóttafólki? Eini munurinn á umsókn um dvalarleyfi á grundvelli verndar og t.d. vegna sérþekkingar eða skorts á vinnuafli er sú að þá þarftu að sækja um áður en þú kemur til landsins. Flóttafólk hefur ekki kost á því. Eini munurinn er sá að þú getur sótt um stöðu flóttamanns — sem er bara dvalarleyfi með atvinnuleyfi, það er dvalar- og atvinnuleyfi en ekki leyfi til þess að hanga á bótakerfinu það sem eftir er ævinnar, alls ekki — eini munurinn er sá að þú getur sótt um það eftir að þú ert kominn til landsins vegna þess að það er vitað að flóttafólk er ekki í þeirri stöðu að það geti beðið heima eða á götunni í Grikklandi eftir því að Útlendingastofnun afgreiði umsókn þess um dvalar- og atvinnuleyfi. Þetta er eini munurinn. Það sem ég og hv. þingmaður erum kannski ósammála um er akkúrat þetta, að flóttafólk sé eitthvað öðruvísi en annað fólk og að það þurfi að gera þennan skýra greinarmun á þeim sem koma hingað og sækja um í verndarkerfinu — og áherslan á vernd eins og þetta séu börn sem við þurfum að taka í fangið og hugsa um það sem eftir er ævinnar. Nei, flóttafólk er bara venjulegt fólk og ég vil fá að ítreka það. Atvinnuþátttaka flóttafólks frá Venesúela, sem ríkisstjórnin lagði svo hart að sér að stoppa flæðið á, — þær umsóknir voru afgreiddar nokkuð hratt líka vegna þess að það var tekin ákvörðun um að veita viðbótarvernd á línuna og viðbótarvernd er ekkert annað en dvalar- og atvinnuleyfi — atvinnuþátttaka þess er meiri en Íslendinga á sama aldri og í sömu demógrafíu. Þetta er kannski það sem við hv. þingmaður erum ósammála um. (Forseti hringir.) En þá býð ég mig fram til þess að kynna hv. þingmann fyrir nokkrum flóttamönnum hér á landi (Forseti hringir.) sem eru, ótrúlegt en satt, bara venjulegt fólk.